Erlent

Tugir hægri­öfga­manna hand­teknir í ó­eirðum í Bret­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregluþjónar yfirbuga konu á mótmælum í Nottingham á Englandi í gær.
Lögregluþjónar yfirbuga konu á mótmælum í Nottingham á Englandi í gær. AP/Jacob King

Fleiri en níutíu hægriöfgamenn voru handteknir í óeirðum sem brutust út á mótmælafundum hægriöfgamanna víðs vegar um Bretland í gær. Sem fyrr grýttu óeirðarseggirnir lögreglumenn og unnu eignaspjöll.

Morð á þremur ungum stúlkum á dansskemmtun í Southport í síðustu viku æsti upp hægriöfgamenn og útlendingahatara sem hafa staðið fyrir óeirðum í fjölda borga og bæja undanfarna viku. Fjöldi lögreglumann hefur slasast í átökum við öfgamennina.

Morðinginn er tæplega átján ára gamall piltur sem fæddist í Cardiff í Wales, sonur innflytjenda frá Rúanda, en honum hefur ranglega verið lýst sem hælisleitanda í straumi upplýsingafals á samfélagmiðlum sem fylgdi í kjölfar árásarinnar.

Óeirðir brutust út í Hull, Liverpool, Bristol, Manchester, Stoke, Blackpool og Belfast á Norður-Írlandi í gær, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Minni mótmæli annars staðar enduðu ekki með uppþotum. 

Um þúsund manns eru sagðir hafa tekið þátt í mótmælum öfgamanna í Liverpool, sem er skammt suður af Southport. Sumir þeirra hrópuðu ókvæðisorð um múslima. Í brýnu sló á milli þeirra og nokkuð hundruð svonefndra andfasista og reyndi lögregla að skerast í leikinn.

Óróinn hélt áfram fram á nótt í Liverpool. Kveikt var í bókasafni í Walton-hverfi borgarinnar og reyndu óeirðarseggirnir að koma í veg fyrir að slökkviliðsmenn gætu slökkt í því, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Merseyside. AP-fréttastofan segir öfgamennina hafa kasta lausamunum í slökkviliðsbíl og brotið rúðu í stýrishúsi hans.

Til átaka kom sums staðar á milli andfasista (t.v.) annars vegar og mótmælenda (t.h.) hins vegar, þar á meðal í Blackpool á Englandi.AP/Michael Holmes/PA

Hamlar daglegum störfum lögreglu

Breska lögreglan varaði við því í dag að endurteknar óeirðir og ofbeldi hægriöfgamanna væri byrjað að hafa áhrif á getu lögreglunnar til þess að rannsaka og taka á öðrum glæpum. Boðað hefur verið til frekari mótmæla í dag sem kallar á að þúsundir lögreglumanna við öryggisgæslu.

„Við sjáum nú að lögreglumenn eru teknir úr daglegum störfum lögreglu en á meðan það gerist er ekki verið að rannsaka glæpi gegn samfélaginu, fórnarlömbum glæpa, því miður,“ segir Tiffany Lynch frá Lögreglusambandi Englands og Wales.

Keir Starmer, forsætisráðherra, hefur heitið lögreglunni stuðningi til þess að takast á við lögleysuna í kjölfar árásarinnar í Southport. Hann kennir hægriöfgahatri um glundroða undanfarinnar viku.

Innan örfárra klukkustunda eftir árásina í Southport fóru rangar upplýsingar á flug um árásarmanninn, þar á meðal rangt nafn sem átti að vera arabískt. Hægriöfgamenn og andstæðingar innflytjenda fullyrtu að morðinginn væri múslimi og innflytjandi.

Dómari ákvað að víkja frá þeirri venju að nafngreina ekki sakborninga sem eru undir lögaldri til þess að koma í veg fyrir að öfgamenn gætu fyllt upp í tómarúmið með upplýsingafalsi.


Tengdar fréttir

Enn einar ó­eirðirnar í Bret­landi í kjöl­far hnífa­á­rásarinnar

Þrír lögreglumenn slösuðust og kveikt var í byggingum þegar hundruð manna stóðu fyrir óeirðum í borginni Sunderland á norðaustur Englandi í gærkvöldi. Óeirðir hafa brotist út í nokkrum borgum eftir að hnífamaður stakk þrjár ungar stúlkur til bana í Southport í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×