Sport

Því­líkt sumar hjá Summer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Summer Mcintosh verður í hópi sigursælustu íþróttamannanna á Ólympíuleikunum í París.
Summer Mcintosh verður í hópi sigursælustu íþróttamannanna á Ólympíuleikunum í París. Getty/ Eurasia Sport Images

Sautján ára kanadísk stelpa er ein af stóru stjörnunum á Ólympíuleikunum í París.

Sundkonan Summer Mcintosh vann í gær sín þriðju gullverðlaun á leikunum þegar hún vann 200 metra fjórsund kvenna á nýju Ólympíumeti.

Hún er fyrsti íþróttamaður frá Kanada sem nær að vinna þrenn gullverðlaun á sömu leikjum.

Hún jafnaði líka met Penny Oleksiak yfir flest verðlaun Kanadamanns á einum leikum.

Oleksiak, þá sextán ára, vann líka fern verðlaun í lauginni í Ríó 2016, eitt gull, eitt silfur og tvö brons.

Mcintosh, sem er fædd í ágúst 2006, hefur unnið þrenn gullverðlaun og eitt silfur á þessum leikum.

Hún vann gull í 200 metra flugsundi, 200 metra fjórsundi og 400 metra fjórsundi en silfrið kom í 400 metra skriðsundi.

Það vissu samt allir af þessari efnilegu sundkonu því hún vann tvo heimsmeistaratitla á bæði HM 2022 og HM 2023. Í báðum tilfellum vann hún 200 metra flugsund og 400 metra fjórsund.

Hún var líka með á síðustu Ólympíuleikum í Tókýó þegar hún var ekki orðin fimmtán ára. Þar náði hún fjórða sætinu í 400 metra skriðsundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×