Körfubolti

Hneykslast á banda­ríska körfu­bolta­lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar körfu hjá bandaríska körfuboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum í París.
LeBron James fagnar körfu hjá bandaríska körfuboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum í París. Getty/Catherine Steenkeste

Bandarísku körfuboltalandsliðið eru greinilega of góð með sig til að gista í Ólympíuþorpinu í París eins og aðrir íþróttamenn á leikunum. Í stað þess eru leikmenn liðsins á lúxushóteli í París.

Sænskur íþróttafréttamaður er mjög hneykslaður á þessu og öllum aukakostnaðnum sem því fylgir.

Bandarísku körfuboltalandsliðið hafa jafnan valið þá leið að gista ekki í Ólympíuþorpinu á Ólympíuleikum en leikmenn karlaliðsins eru oft meðal frægustu íþróttamanna heims og áreitið því mikið á þá í Ólympíuþorpinu.

Tveir milljarðar króna

Körfuboltafólkið er hins vegar frjálst að mæta í þorpið sem þau gera í einhverjum mæli.

Hvort að það sé ástæðan eða kröfur leikmanna um meiri lúxus þá er ljóst að þetta fyrirkomulag kallar á fimmtán milljónir dollara í aukakostnað samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum. Það eru meira en tveir milljarðar íslenskra króna.

Nick Rajacic, körfuboltasérfræðingur sænska ríkisútvarpsins, hneykslast á bandaríska körfuboltalandsliðinu.

„Þeir eyða fimmtán milljón Bandaríkjadölum svo að bæði karla- og kvennalandsliðið geti gist fyrir utan Ólympíuþorpið á einhverju lúxushóteli,“ sagði Rajacic.

Hvað er að gerast með íþróttirnar?

„Fimmtán milljónir dollara. Hvað er að gerast með íþróttirnar? Ég sjálfur fór með rútu á körfuboltamót í Eskilstuna og svaf á loftdýnu í skólastofu með þrettán liðsfélögum sem hrutu allir. Þetta er þvert gegn öllu því sem Ólympíuandinn stendur fyrir,“ sagði Rajacic.

„Sofa þau kannski í rúmum úr gulli? Eru þau með þjóna þarna? Mér finnst þetta vera úti í hött og algjörlega tilgangslaust,“ sagði Rajacic. Það er eitt að gista á hótelum en að það kosti meira en tvo milljarða króna er furðulegt.

Bæði bandarísku landsliðin hafa unnið leiki sína til þessa á leikunum og fátt virðist ætla að koma í veg fyrir að þau vinni gullverðlaunin í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×