Sport

Skokkaði í sprett­hlaupi á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freddie Crittenden á einn af bestu tímum ársins en hann varð langsíðastur í sínum riðli í undanrásum 110 metra grindahlaupsins í dag.
Freddie Crittenden á einn af bestu tímum ársins en hann varð langsíðastur í sínum riðli í undanrásum 110 metra grindahlaupsins í dag. Getty/Julian Finney/

Bandaríkjamaðurinn Freddie Crittenden vakti mikla athygli í undanrásum í 110 metra grindahlaupi í dag en þó ekki fyrir að hlaupa hratt heldur fyrir það að hlaupa hægt.

Hinn þrítugi Crittenden skokkaði í þessu spretthlaupi og kom langsíðastur í mark í sínum riðli.

Það er ekki auðvelt að komast í Ólympíulið Bandaríkjanna og Crittenden er því öflugur hlaupari þótt að það hafi ekki sést þarna.

Eftir hlaupið vildu allir vita hvað vær eiginlega í gangi og þá kom í ljós að þetta var taktík hjá honum.

Breyttar reglur þýða að nú fá allir sem komast ekki beint áfram annað tækifæri í aukahlaupi daginn eftir.

Crittenden er að koma til baka eftir meiðsli og sagðist vera að spara sig fyrir aukahlaupið. Hann varð samt að taka þátt í þessu hlaupi til að vera gjaldgengur í það.

Crittenden kom í mark á 18,27 sekúndum en Senegalinn Francois Mendy vann riðilinn á 13,31 sekúndum.

Nú er bara að sjá hvort þessi taktík virki og hann nái að tryggja sér sæti í undanúrslitahlaupinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×