Handbolti

Gid­sel getur klárað ein­staka marka­kóngs­þrennu á þessum leikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mathias Gidsel á góða möguleika á að verða markakóngur á öllum þremur stórmótum handboltans og það á innan við tveimur árum.
Mathias Gidsel á góða möguleika á að verða markakóngur á öllum þremur stórmótum handboltans og það á innan við tveimur árum. Getty/Buda Mendes

Danski handboltamaðurinn Mathias Gidsel hefur skorað 43 mörk í fyrstu fimm leikjum Dana á Ólympíuleikunum í París.

Hann er með átta marka forystu í baráttunni um markakóngstitil keppninnar. Næstur á eftir honum er landi hans Simon Pytlick með 35 mörk. Hvorugur þeirra hefur tekið vítakast á mótinu.

Slóveninn Aleks Vlah er líka með 35 mörk og Egyptinn Yhaia Omar er síðan með 31 mark.

Danir unnu alla fimm leiki sína í riðlakeppninni og eru líklegir til að fara mjög langt á þessum Ólympíuleikum. Það eru því miklar líkur á því að Gidsel verði markakóngur leikanna.

Takist það hjá honum verður hann fyrstur í sögunni til að verða markakóngur á HM, á EM og á ÓL.

Gidsel myndi enn fremur ná þrennunni á innan við tveimur árum.

Hann varð markakóngur HM 2023 með 60 mörk þar sem hann skoraði sex mörkum meira en næsti maður.

Hann var síðan markakóngur EM 2024 með 54 mörk þar sem hann deildi reyndar markakóngstitlinum með Martim Costa frá Portúgal.

Gidsel hefur samtals skorað 157 mörk á þessum þremur stórmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×