Sport

Gekk tveggja tíma leið á æfingar en er nú sú sigursælasta í sögunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rebeca Andrade er orðinn sigursælasti íþróttamaður Brasilíu frá upphafi á Ólympíuleikum.
Rebeca Andrade er orðinn sigursælasti íþróttamaður Brasilíu frá upphafi á Ólympíuleikum. Daniela Porcelli/Eurasia Sport Images/Getty Images

Brasilíska fimleikakonan Rebeca Andrade vann til gullverðlauna á gólfi á Ólympíuleikunum í gær. Þetta voru hennar sjöttu Ólympíuverðlaun á ferlinum.

Andrade gerði sér lítið fyrir og hafði betur gegn Simone Biles, einni bestu fimleikakonu sögunnar, á gólfi á Ólympíuleikunum í gær. 

Andrade gerði sínar æfingar á undan Biles og fékk 14.166 í einkunn fyrir þær. Pressan var því talsverð á þeirri bandarísku áður en hún framkvæmdi sínar æfingar.

Biles gerði mjög erfiðar æfingar en steig tvisvar út af sem reyndist dýrt. Hún fékk 14.133 í einkunn og varð að gera sér silfurverðlaunin að góðu.

Eins og svo margir íþróttamenn hefur Andrade þurft að hafa fyrir hlutunum. Hún hefur þó lagt meira á sig en margir, en sem barn þurfti hún að ganga tveggja tíma leið til og frá æfinga. 

Æfingarnar virðast þó sannarlega hafa skilað sér, því essi 25 ára gamla fimleikakona er nú orðin sigursælasti íþróttamaður Brasilíu á Ólympíuleikum í sögunni.

Alls hefur hún unnið til sex verðlauna á Ólympíuleikum á ferlinum, en hún er að taka þátt á sínum öðrum leikum. Andrade hefur tvívegis unnið til gullverðlauna, þrisvar hefur hún unnið til silfurverðlauna og einu sinni hefur hún unnið til bronsverðlauna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×