Upp­gjör og við­töl: FH - Víkingur 2-3 | Skiptingar sem skiptu sköpum

Árni Jóhannsson skrifar
435662563_7640514916001219_6459232936616829298_n
Vísir / Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Víkings gerðu góða ferð í Kaplakrikann í kvöld í 17. umferð Bestu deildar karla. Þeir báru sigurorð af FH sem var 2-1 yfir í hálfleik. Sveinn Gísli Þorkelsson og Valdimar Þór Ingimundarson komu inn á í upphafi seinni hálfleiks og bjuggu til tvö mörk til að vinna leikinn. Víkingur leiðir deildina með níu stigum eins og staðan er núna.

Áhorfendur og aðdáendur liðanna hefðu ekki getað beðið um betri byrjun á leiknum. Það voru ekki nema ein mínúta og 30 sekúndur ca. á klukkunni þegar gestirnir komust yfir. Þá gaf Ari Sigurpálsson fyrir og fann Helga Guðjónsson við vítapunktinn sem stýrði knettinum í netið án þess að nokkur komi vörnum við.

Sex mínútum síðar voru heimamenn búnir að jafna Kjartan Kári Halldórsson spretti þá að vítateigslínunni og sveigði boltann framhjá Ingvari í markinu og í hornið fjær. Það var reynt að brjóta á honum en hann komst alla þess leið.

Þremur mínútum síðar, á 11. mínútu, voru heimamenn svo komnir yfir. Langur bolti var hengdur á Ísak Óla sem skallaði boltann inn á Björn Daníel Sverrisson sem tók boltann með sér með brjóstkassanum áður en hann lúðraði boltanum í netið af stuttu færi. Glæsilegt mark og FH komnir yfir.

Leikurinn róaðist eftir þetta, að sjálfsögðu, án þess þó að tapa ákafa. Víkingur var með boltann meirihlutann af leiknum án þess þó að ná að brjóta FH-inga aftur á bak. Fyrri hálfleikur leið í stöðunni 2-1.

Seinni hálfleikur var í svipuðum takti og sá fyrri. Víkingur var með boltann en FH voru þéttir fyrir og gerðu vel í að halda Víking í skefjum. Á 64. mínútu gerðu geistirnir tvöfalda skiptingu þegar Sveinn Gísli Þorkelsson og Valdimar Þór Ingimundarson komu inn á. Þeir áttu eftir að vera örlagavaldar í kvöld. 

Mínútu eftir að þeir komu inn á þá voru þeir búnir að búa til mark. Báðir áttu fyrstu snertingu sína í leiknum þar sem Sveinn Gísli sendi boltann fyrir og Valdimar fann pláss fyrir aftan vörn FH og setti boltann í netið. Korteri síðar var sama uppskrift nema þá var Sveinn nær miðju en endalínunni og aftur var Valdimar í ekrum af plássi til að stýra boltanum í netið. 

Við þetta vöknuðu FH örlítið án þess þó að ná að jafna metið. Björn Daníel hefði þurft að vera ca. sentimeter hærri til að ná að skalla fyrirgjöf á rammann og alveg á lokamínútunni þá náði FH þremur skotum eftir hornspyrnu, í varnarmann, í Ingvar Jónss. og yfir markið áður en lokaflautið gall. Gott veganesti fyrir Víking fyrir leikinn gegn Flora Tallin á fimmtudaginn.

Atvik leiksins

Í leik troðfullum af atvikum skulum við velja tvöfalda skiptingu Víkings á 64. mínútu. Drengirnir sem komu inn á þá sköpuðu mörkin og tryggðu stigin þrjú sem geta orðið svo mikilvæg þegar talið verður upp úr pokanum í haust. 

Set líka hér inn á skiptingu Óskars Arnars Haukssonar sem nú er orðinn leikjahæsti leikmaður sögunnar.

Stjörnur og skúrkar

Þetta er allt á sömu bókina lært. Valdimar Þór Ingimundarson og Sveinn Gísli Þorkelsson eru stjörnurnar. Arnar Gunnlaugsson þarf kannski líka smá ást fyrir að gera skiptinguna en það var af nægu að taka.

Skúrkarnir verða að vera varnarmenn FH sem gleymdu sér í tvígang í seinni hálfleik. Annars voru þeir búnir að vera mjög góðir. Þetta var súrt tap.

Umgjörð og stemmning

Stemmningin var frábær í kvöld. Maður heyrði að þessi leikur skipti miklu máli fyrir þá 1257 áhorfendur sem komu í stúkuna. Þeir hvöttu lið sín vel. Völlurinn frábær og rennandi blautur gerðu að verkum að leikurinn var mjög góður.

Dómarinn

Sigurður Hjörtur hélt um flautuna og gerði það vel. Maður tók lítið eftir honum og leikurinn flaut. Átta í einkunn og teymið getur gengið stolt frá borði.

Viðtöl:

Björn Daníel: Gamli kallinn með þetta á bakinu

Fyrirliði FH gat ekki verið annað en fúll með úrslit kvöldsins en var þó stoltur af því hvernig liðið spilaði leikinn. FH leið vel með forystu þá að gestirnir væru meira með boltann en hvað breyttist til þess að leikurinn tapaðist.

„Mér fannst við falla aðeins aftar á völlin og við hefðum mátt fara aðeins framar á völlinn í seinni hálfleik. Þetta gekk vel í fyrri þegar við ýttum upp á þá. Þeir eru mjög góðir í því sem þeir gera, fyrirgjöfum og svona, eru með klassaleikmenn og ef maður hefur ekki gætur á þeim þá refsa þeir manni. Það er leiðinlegt að fá ekki neitt úr þessum leik í ljósi þess að við vorum 2-1 yfir og þannig séð með þetta á þeim stað sem við vildum hafa þetta.“

FH hefði getað með sigri blandað sér í toppbaráttuna í deildinni og var Björn spurður að því hvort þessi úrslit væru áfall.

„Já auðvitað. Menn voru alveg meðvitaðir um það að þessi leikur væri mjög mikilvægur í því að koma okkur hærra í töfluna. Það er auðvitað markmið hjá klúbbnum að vera að keppa á toppnum eins og þetta var fyrir nokkrum árum. Við erum með ungt lið og það eru þessir leikir sem kenna þessum ungu strákum og gefa þeim reynsluna sem þarf í þessum fótbolta. Ég er samt stoltur af strákunum og við gáfum allt í þetta. Þeir voru bara aðeins skarpari en við.“

Breytast markmiðin sem liðið hefur í kjölfar þessa leiks?

„Nei, nei. Við förum í alla leiki til að vinna. Þetta snýst um að reyna að bæta sig með hverjum leiknum. Við vorum búnir að ná að fá á okkur fá mörk í síðustu sex leikjum en fáum á okkur þrjú mörk í dag sem er of mikið. Það er það versta í þessu og við þurfum að kíkja á það. Svo átti ég bara að skora, gamli kallinn með þetta á bakinu þarna í 2-3.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira