Enski boltinn

Gagn­rýnir fjárhagsreglurnar eftir að Chelsea seldi Gallagher

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Enzo Maresca ræddi við blaðamenn um söluna á Conor Gallagher.
Enzo Maresca ræddi við blaðamenn um söluna á Conor Gallagher. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Enzo Maresca, nýráðinn stjóri Chelsea, gagnrýnir regluverk ensku úrvalsdeildarinnar sem hann segir hvetja félög til að selja uppalda leikmenn frá sér.

Conor Gallagher er á leið til Atlético Madrid. Hann verður þar með sjöundi uppaldi leikmaðurinn sem Chelsea selur frá sér síðasta árið. Reiknað er með því að tveir aðrir, Armando Broja og Trevor Chalobah, verði einnig seldir í sumar.

Ástæðan fyrir því að Chelsea er svo duglegt að selja uppalda leikmenn er að sala þeirra skráist sem hreinn gróði í bókhaldinu, sem gerir Chelsea kleift að hlýða ströngu fjárhagsregluverki ensku úrvalsdeildarinnar. Sem uppeldisfélag fær Chelsea einnig hluta af söluverði ef þeir eru seldir aftur.

Enzo Maresca var spurður af BBC hvort hann hefði áhyggjur af því að stuðningsmenn tæku illa í að sjá alla uppöldu leikmennina selda frá félaginu.

„Þetta eru ekki bara við, öll félög úrvalsdeildarinnar þurfa að gera þetta. Það er algjör synd, á Ítalíu til dæmis sáum við Totti spila með Roma í tuttugu ár. Við elskum að sjá það og aðdáendurnir vilja það eins og reglurnar eru núna er það ekki lengur hægt.“

Hann var svo spurður hvort breyta þyrfti reglunum og svaraði því játandi.

Vert er að nefna að Chelsea hefur eytt meira en milljarði punda í leikmenn undanfarin tvö ár eftir að Todd Boehly keypti félagið. Þegar svo miklu er eytt þarf að selja mikið á móti til að jafna út bókhaldið og fylgja reglum sem kveða að félög megi ekki vera rekin með meira en 105 milljóna punda tapi yfir þriggja ára tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×