Fótbolti

Kristján Flóki heim í FH en Gyrðir og Ástbjörn fara heim í KR

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Flóki er genginn í raðir FH á ný.
Kristján Flóki er genginn í raðir FH á ný. Vísir/Bára Dröfn

Kristján Flóki Finnbogason er genginn í raðir uppeldisfélags síns, FH, á nýjan leik. Hann kemur til liðsins frá KR, en á sama tíma fara þeir Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson frá FH til KR.

Ástbjörn og Gyrðir eru uppaldir KR-ingar og skrifa undir fimm ára samning við Vesturbæjarliðið. Samningar þeirra við FH áttu að gilda út næsta tímabil, sem og samningur Kristjáns Flóka við FH.

„Það gleður okkur alltaf að fá KR-inga aftur heim og er það mikið fagnaðarefni að fá þá Gyrði og Ástbjörn aftur í Frostaskjólið. Gyrðir getur leyst flestar stöður á vellinum en er miðvörður að upplagi og er Ástbjörn varnarmaður/hægri bakvörður,“ segir í tilkynningu KR-inga.

„Við bjóðum ykkur velkomna á æskuslóðirnar strákar og hlökkum til að sjá ykkur blómstra í KR treyjunni á ný.“

Þá greindu FH-ingar einnig frá heimkomu Kristjáns Flóka á samfélagsmiðlum sínum, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Kristján Flóki lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir FH árið 2012 áður en hann gekk í raðir FCK ári síðar. Hann lék svo aftur með FH á árunum 2015-2017, en reyndi svo aftur fyrir sér í atvinnumennsku með norska liðinu Start og sænska liðinu Brommopojkarna áður en hann snéri heim til Íslands árið 2019 og hefur leikið með KR síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×