Fótbolti

Brassar völtuðu yfir heimsmeistarana á leið sinni í úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gabi Portilho skoraði og lagði upp fyrir brasilíska liðið.
Gabi Portilho skoraði og lagði upp fyrir brasilíska liðið. Alex Livesey/Getty Images

Brasilía tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Ólympíuleikanna í knattspyrnu kvenna er liðið vann öruggan 4-2 sigur gegn heimsmeisturum Spánar.

Brasilíska liðið komst yfir strax á sjöttu mínútu þegar Irene Paredes varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net áður en Gabi Portilho tvöfaldaði forystuna á fjórðu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Gabi Portilho var svo aftur á ferðinni á 72. mínútu þegar hún lagði upp þriðja mark Brasilíu fyrir Adriana, sem hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður.

Salma Paralluelo klóraði í bakkann fyrir spænska liðið eftir stoðsendingu frá Jenni Hermoso fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma, en Kerolin endurheimti þriggja marka forskot brasilíska liðsins í uppbótartíma.

Salma Paralluelo var hins vegar aftur á ferðinni þegar hún klóraði í bakkann í annað sinn fyrir Spánverja á tólftu mínútu uppbótartíma, en þar við sat.

Niðurstaðan því öruggur 4-2 sigur Brasilíu sem er á leið í úrslit þar sem liðið mætir Bandaríkjunum. Spánverjar munu hins vegar leika um silfur gegn Þjóðverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×