Fótbolti

„Finnst við vera búnir að taka nokkur stór skref í sumar“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Guðmundur Magnússon er fyrirliði Fram.
Guðmundur Magnússon er fyrirliði Fram. Vísir/Hulda Margrét

Fram tók á móti Stjörnunni í kvöld þegar sautjánda umferð Bestu deildarinnar hélt áfram göngu sinni. Eftir mikla baráttu voru það heimamenn í Fram sem höfðu betur með tveimur mörkum gegn einu.

„Leikurinn var þéttur og erfiður í fyrri hálfleik. Þeir voru að stjórna leiknum kannski en við fengum hættulegri færi og ákváðum í hálfleik að hækka aðeins tempóið hjá okkur og við náðum að gera það og vinnum á endanum,“ sagði Guðmundur Magnússon fyrirliði Fram eftir leikinn í kvöld.

Fram mætti af krafti í þennan leik og sýndu strax að þeir ætluðu ekkert að gefa eftir í baráttunni.

„Ef þú leyfir Stjörnunni að fá eitthvað smá pláss með boltann að þá refsa þeir þannig þú þarft að mæta strax í leik og vera klár og halda ákefðinni uppi því þeir eru gríðarlega orkumikið lið.“

Fram náði forystunni í leiknum með marki frá Denairo Daniels og sagði Guðmundur að það hafi verið mikilvægt að ná forystunni í kvöld.

„Það var mjög mikilvægt að við myndum komast yfir því maður veit ekkert hvernig þeir kæmu, þeir eru að koma úr mjög erfiðu prógrammi og maður veit ekkert hvernig þeir hefðu brugðist við og hvort þeir hefðu haldið áfram að spila sinn bolta eða lagst niður eða hvað.“

„Við erum erfiðir þegar við komumst yfir og þeir skoruðu reyndar helvíti gott mark en sem betur fer þá endaði þetta okkar meginn.“

Fram átti flottan júlímánuð og byrja ágústamánuðinn vel.

„Liðið er bara að halda áfram að þroskast eins og ég hef oft sagt áður að þá kemur Rúnar inn og er að koma með sína áherslupunkta og við þurfum að læra inn á þá og mér finnst við vera búnir að taka nokkur stór skref í sumar og við ætlum okkur að halda áfram að gera það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×