Viðskipti innlent

Nanna Kristín ráðin fram­kvæmda­stjóri Bestseller

Jón Þór Stefánsson skrifar
Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar.
Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Aðsend

Nanna Kristín Tryggvadóttir ráðinn framkvæmdastjóri Bestseller á Íslandi sem rekur meðal annars Jack & Jones, Vero Moda, Selected, Vila og Name It.

Nanna Kristín hefur undanfarið starfað sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Þar á undan var hún framkvæmdastjóri Byggingarfélagsins Húsheildar Hyrnu. Þá starfaði hún einnig í Landsbankanum, lengst af sem aðstoðarmaður bankastjóra. Hún er jafnframt formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og ein af forsvarskonum góðgerðarfélagsins Konur eru konum bestar.

Í tilkynningu frá Bestseller er haft eftir Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur, starfandi stjórnarformanni félagsins, að ráðning Nönnu Krístínar sé hluti af umbreytingarferli sem félagið sé í.

„Við höfum fjárfest miklum tíma og fjármunum í endurskoðun á innri ferlum, styrkingu innviða, uppfærslu á upplýsingatæknikerfum, mótun og framkvæmd markaðsmála og sjálfvirknivæðingu. Framtíð verslunar á Íslandi verður blanda af sjálfsafgreiðslu á netinu og rekstri búða. Við sjáum öran vöxt í viðskiptum á netinu og ætlum okkar að taka virkan þátt í þeirri samkeppni.“

Fram kemur að Nanna Kristín muni hefja störf á næstu dögum.

„Bestseller er öflugt fyrirtæki með sterka markaðsstöðu og á spennandi vegferð. Það hafa orðið miklar umbreytingar á verslunum og kauphegðun undanfarin ár og ég hlakka mikið til að mæta til leiks og takast á við verkefnin framundan með öllu því öfluga fólki sem starfar hjá félaginu,“ er haft eftir Nönnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×