Sport

Stans­laus slags­mál stjörnunýliðans

Valur Páll Eiríksson skrifar
Margir eru spenntir að sjá Nabers í NFL-deildinni í vetur, ekki síst stuðningsmenn New York Giants.
Margir eru spenntir að sjá Nabers í NFL-deildinni í vetur, ekki síst stuðningsmenn New York Giants. Getty

Það gengur á ýmsu á sameiginlegum æfingum NFL-liðanna Detroit Lions og New York Giants sem undirbúa sig fyrir komandi leiktíð. Nýliðinn Malik Nabers grípur fyrirsagnirnar.

Það eru ekki aðeins fyrirsagnir sem útherjinn Nabers grípur á æfingunum. Fregnir vestanhafs herma að hann hafi gripið 17 af þeim 18 sendingum sem honum bárust síðustu tvo daga er liðin hafa tekið æfingaleiki sín á milli.

Nabers var valinn sjötti í nýliðavalinu í sumar af New York Giants og miklar væntingar bornar til hans fyrir komandi leiktíð. Þá virðist hluti af undirbúningnum fyrir komandi leiktíð að fleygja boltanum ítrekað til hans á æfingum með Lions, eitthvað sem hann hefur leyst vel úr hendi.

Leikmenn Detroit Lions liðsins hafa tekið misvel við útherjanum og hafa tvisvar brotist úr allsherjar slagsmál útfrá erjum Nabers við varnarmenn liðsins. Fyrst við Terrion Arnold og svo við Kerby Joseph.

Dan Campbell, þjálfari Lions, sagði í samtali við ESPN menn vissulega hafa gengið full langt í árásargirninni á æfingum en heilt yfir hafa slagsmálin verið töluð niður. Um er að ræða keppnismenn sem vilji sérstaklega sýna sig og sanna þegar leikmenn annars liðs eru komnir inn á æfingar.

Eftir að æfingum er lokið eru þó engin vandamál milli leikmanna, eftir því sem kemur fram í fréttum vestanhafs.

Liðin undirbúa sig fyrir fyrstu æfingaleikina í aðdraganda komandi leiktíðar en þau mætast einmitt innbyrðis í fyrsta æfingaleik beggja liða fyrir komandi tímabil. Sá fer fram annað kvöld á MetLife-vellinum í New Jersey.

Fyrstu leikirnir í NFL-deildinni fara fram eftir tæpan mánuð. Kansas City Chiefs og Baltimore Ravens opna leiktíðina aðfaranótt föstudagsins 6. september.

Myndskeið af slagsmálunum á æfingum liðanna má sjá að ofan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×