Handbolti

Spán­verjar í undan­úr­slit eftir mikla spennu og fram­lengingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yehia Elderaa átti góðan leik fyrir Egyptaland gegn Spáni en það dugði ekki til.
Yehia Elderaa átti góðan leik fyrir Egyptaland gegn Spáni en það dugði ekki til. getty/Alex Davidson

Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í fyrsta leik átta liða úrslitanna í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París. Spánverjar unnu þá Egypta, 29-28.

Hægri hornamaðurinn Aleix Gómez skoraði sigurmark Spánar úr vítakasti þegar 25 sekúndur voru eftir. Egyptaland fékk tækifæri til að jafna í lokasókn sinni en tókst það ekki.

Egyptar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, 8-12.

Spánverjar tóku við sér í seinni hálfleik en áhlaupið virtist ætla að koma of seint. Gómez jafnaði loks í 24-24 með marki úr víti en Seif Elderaa kom Egyptum aftur yfir, 24-25. Ian Tarrafeta tryggði Spánverjum svo framlengingu þegar hann jafnaði í 25-25 þegar hálf mínúta var eftir.

Í framlengingunni var spænska liðið með frumkvæðið og alltaf á undan að skora. Gómez kom Spáni í 28-27 en Yehia Elderaa jafnaði í 28-28. Spánverjar fóru svo í sókn og Alex Dujshebaev fiskaði víti sem Gómez skoraði sigurmarkið úr, 29-28.

Gómez skoraði átta mörk úr átta skotum og Tarrafeta var með sex mörk. Yehia Elderaa skoraði átta mörk fyrir Egyptaland og Seif Eldeera sex.

Í undanúrslitunum mætir Spánn sigurvegaranum úr leik Frakklands og Þýskalands sem hefst klukkan 11:30 á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×