Sport

Phelps von­svikinn með banda­rísku sundmennina á ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Phelps ásamt eiginkonu sinni (Nicole) og syni (Nico) á körfuboltaleik Bandaríkjanna og Nígeríu.
Michael Phelps ásamt eiginkonu sinni (Nicole) og syni (Nico) á körfuboltaleik Bandaríkjanna og Nígeríu. getty/Karwai Tang

Michael Phelps, sigursælasti Ólympíufari allra tíma, er ekki sáttur með árangur bandarísku sundmannanna á Ólympíuleikunum í París.

Bandaríkin unnu aðeins ein gullverðlaun í sundi karla sem er versti árangur þeirra síðan í Melbourne 1956.

Phelps fór ekki leynt með vonbrigði sín er hann var spurður út í rýra uppskeru Bandaríkjanna í lauginni í París.

„Ég er heilt yfir frekar vonsvikinn að sjá árangur Bandaríkjanna. Eitt af því sem ég hef alltaf sagt síðustu ár er að hinar þjóðirnar eru að nálgast okkur. Þær eru að gera sömu hlutina. Vonandi getum við gert breytingar fram að leikunum 2028,“ sagði Phelps hreinskilinn.

Hann hrósaði þó Bobby Finke sem var eini bandaríski sundmaðurinn sem vann gull í París, í 1.500 metra skriðsundi. Ekki nóg með það heldur setti hann nýtt heimsmet í greininni; 14:30,67.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×