Erna er á sínum fyrstu Ólympíuleikum og er fyrsta íslenska konan sem keppir í kúluvarpi á leikunum.
Hún kastaði lengst 17,39 metra í öðru kasti sínu. Í fyrsta kastinu varpaði Erna kúlunni 17,34 metra og þriðja kastið taldi 17,29 metra. Besti árangur Ernu utanhúss er 17,91 metri en lengst hefur hún kastað 17,92 metra innanhúss.
Erna varð í 11. sæti í sínum riðli sem dugði þó ekki til að komast í úrslit en þangað komust sex efstu í hvorum riðli.
Árangurinn er samt mjög góður þar sem Erna kom inn á Ólympíuleikana með 31. besta árangurinn af 32 keppendum. Í heildina varð Erna í 20. sæti.
Sarah Mitton frá Kanada kastaði lengst í undanriðli Ernu, eða 19,77 metra.
Allir íslensku keppendurnir hafa nú lokið leik á Ólympíuleikunum.