Fótbolti

„Orðið full langt síðan“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viktor Örlygur er klár í kvöldið.
Viktor Örlygur er klár í kvöldið. Vísir/Hulda Margrét

„Mér líst bara mjög vel á þetta, ég held það séu allir klárir,“ segir Viktor Örlygur Andrason, leikmaður Víkings, um verkefni kvöldsins er Víkingar mæta Flora Tallinn í Sambandsdeild Evrópu.

Víkingur og Flora Tallinn mætast klukkan 18:15 í kvöld. Leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það mæðir mikið á Víkingum þessa dagana og töluvert um meiðsli samhliða því. Æfingaálagið er því misjafnt þegar er leikið svo þétt.

„Það er mismunandi eftir mönnum. Sumir taka meira en aðrir. Þeir sem spila minna taka kannski eina alvöru æfingu á milli og svo eru sumir sem gera það sem þeir eru vanir. Hvort sem það sé meðhöndlun eða hjóla aðeins inni,“ segir Viktor.

Klippa: „Orðið fulllangt síðan“

En hverju búast Víkingar við frá eistneska liðinu?

„Þeir eru líklega í 4-4-2 og verða svolítið þéttir. Það hentar okkur alveg vel að spila á móti 4-4-2, við þekkjum það kerfi inn og út. Við vitum bæði hvar við getum meitt þá og hvað við þurfum að passa. Við erum bara vel stemmdir og ætlum að eiga góðan leik,“

„Við viljum halda í boltann og munum reyna að stjórna leiknum þannig. Það er spurning hvort þeir reyni að pressa á okkur eða hvort þeir reyni að halda bara og ná í góð úrslit. Við þurfum að nýta heimavöllinn með fulla stúku,“ segir Viktor Örlygur.

Víkingur leitar fyrsta heimasigursins í Evrópukeppni í ár og menn eru staðráðnir í því að skila slíkum í höfn í kvöld.

„Það er kominn tími. Það er orðið fulllangt síðan það vannst sigur hérna. Það er eitthvað sem við stefnum á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×