Innlent

Eldur í einu her­bergi í í­búðar­hús­næði á Hall­gerðar­götu

Kjartan Kjartansson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Slökkvilið reykræstir nú íbúðina en miklar skemmdir urðu í herberginu þar sem eldurinn kom upp.
Slökkvilið reykræstir nú íbúðina en miklar skemmdir urðu í herberginu þar sem eldurinn kom upp. Vísir/Vésteinn

Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sinnti í hádeginu útkalli vegna elds á Hallgerðargötu í Reykjavík. Tilkynning barst um eld í íbúðarhúsnæði klukkan 12. Slökvistarf gekk hratt og örugglega fyrir sig. Ekki þurfti að flytja neinn á slysadeild. 

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var mikill eldur í einu herbergi og eru þar miklar skemmdir. 

Nokkrir dælubílar voru sendir á vettvang.Vísir/Vésteinn

Ekki er vitað um eldsupptök að svo stöddu. Slökkvilið er búið að slökkva eldinn og vinnur nú að því að reykræsta íbúðina. Að því loknu er vettvangurinn afhendur lögreglu til rannsóknar. 

Frá vettvangi á Hallgerðargötu.Aðsend

„Það kom upp eldur í einu herbergi í íbúð. Staðbundinn við eitt herbergi,“ segir Bernódus Sveinsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir alla hafa komist út af sjálfsdáðum og að eldurinn hafi verið nokkuð kæfður þegar slökkvilið kom á vettvang. Viðtal við Bernódus má sjá hér að neðan. 

Sérsveit bauð fram aðstoð

Sérsveit ríkislögreglustjóra var á vettvangi brunans en samkvæmt upplýsingum frá Helenu Rós Sturludóttur, samskiptastjóra ríkislögreglustjóra, var hún nærri vettvangi þegar útkallið var sent út og bauð fram aðstoð sína. Liðsmenn þurftu þó ekki að aðhafast neitt á vettvangi. 

Slökkvilið við störf.Vísir/Vésteinn

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×