Fótbolti

Bronsið til Marokkó eftir upp­rúllun

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Marokkó fagna bronsinu.
Leikmenn Marokkó fagna bronsinu. Vísir/Getty

Marokkó tryggði sér í dag bronsverðlaun í knattspyrnu á Ólympíuleikunum eftir risasigur gegn Egyptum í bronsleiknum.

Egyptar féllu úr leik í undanúrslitum eftir tap gegn Frökkum en Marokkó tapaði á sama tíma gegn Spánverjum.

Hvorugt liðið hafði tapað leik á Ólympíuleikunum og því var ljóst að eitthvað yrði undan að láta í leik kvöldsins. Það gerði það líka svo sannarlega.

Marokkó hreinlega valtaði yfir Egypta í leiknum sem sáu ekki til sólar. Abedssamad Ezzalzouli kom Marokkó yfir á 23. mínútu og Soufiane Rahimi tvöfaldaði forystuna þremur mínútum síðar.

Staðan í hálfleik var 2-0 en eftir hlé bætti Marokkó við fjórum mörkum. Bilal El Khannous skoraði á 51. mínútu áður en Rahimi bætti sínu öðru marki við skömmu síðar. Akram Nakach skoraði fimmta markið á 73. mínútu og þremur mínútum fyrir leikslok skoraði stórstjarnan Achraf Hakimi glæsilegt mark úr aukaspyrnu og innsiglaði 6-0 sigur Marokkó.

Þetta er í fyrsta sinn sem Marokkó vinnur til verðlauna í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×