Erlent

Varð vitni að á­rásinni sem varð systur hennar að bana

Jón Þór Stefánsson skrifar
Blómvendir umlykja vettvang árásarinnar í Southport.
Blómvendir umlykja vettvang árásarinnar í Southport. Getty

Foreldrar Bebe King, sex ára stúlku sem var stungin til bana í árásinni í Southport í Bretlandi í lok júlímánaðar, segja eldri systur hennar hafa orðið vitni að árásinni en komist undan.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem foreldrarnir hafa sent á breska fjölmiðla.

Bebe var ein þriggja stúlkna sem lést í árásinni sem var framin á Taylor Swift-dansæfingu í Southport 29. júlí síðastliðinn. Í kjölfarið hafa mikil mótmæli og óeirðir brotist út í Bretlandi sem lögreglan segir keyrt áfram af hatursorðræðu og fölskum upplýsingum.

„Bebe var uppfull af gleði og lífi. Hún var ástríðufull og mun ávallt eiga stað í hjarta okkar sem blíð og kát stúlka sem við dáðum,” segir í tilkynningu foreldrana, Lauren og Ben.

Þau segja níu ára dóttur sína Genie hafa orðið vitni að árásinni, en henni hafi tekist að sleppa.

„Hún hefur sýnt svo mikinn styrk og er svo hugrökk. Við erum rosalega stolt af henni,“ segja foreldrarnir um Genie.

„Þrautseigja hennar er til marks um ástina og samband hennar við litlu systur sína. Við munum halda áfram að styðja við hana á meðan við fjölskyldan erum í þessari sársaukafullu þrautagöngu.“

Foreldrarnir segja að hugur þeirra sé hjá aðstandendum annarra fórnarlamba árásarinnar. Þá þakka þau fyrir mikinn stuðning sem þau hafa fundið fyrir í kjölfar andlátsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×