Handbolti

Enn og aftur unnu Spán­verjar brons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spánverjar fagna sigrinum á Slóvenum og bronsverðlaununum.
Spánverjar fagna sigrinum á Slóvenum og bronsverðlaununum. getty/Alex Davidson

Spánn vann Slóveníu, 23-22, í leiknum um bronsið í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í París í morgun.

Þetta er í fimmta sinn sem Spánverjar vinna til bronsverðlauna á Ólympíuleikum. Þeir unnu einnig brons 1996, 2000, 2008 og 2020.

Slóvenar misstu hins vegar af tækifæri til að vinna sín fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum. Þeir komu samt mörgum á óvart með því að komast í undanúrslit á leikunum.

Aleix Gómez skoraði fimm mörk fyrir Spán í leiknum í morgun og Agustin Casado fjögur. Jure Dolenec var markahæstur á vellinum með sex mörk, öll úr vítaköstum. Blaz Janc skoraði fimm og Aleks Vlah, markahæsti leikmaður Ólympíuleikanna, þrjú.

Leikurinn í morgun var jafn og spennandi og staðan í hálfleik var jöfn, 12-12. Spánverjar leiddu lengst af seinni hálfleiks en Slóvenar náðu forystunni, 19-20, eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð. En Spánn var sterkari á lokakaflanum og tryggði sér sigurinn, 23-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×