Erlent

Segir Írani hafa hakkað tölvu­pósta fram­boðsins

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Fjölmiðlinum Politico bárust gögn úr herbúðum Donalds Trump, sem fengin voru með ólöglegum hætti.
Fjölmiðlinum Politico bárust gögn úr herbúðum Donalds Trump, sem fengin voru með ólöglegum hætti. AP

Kosningateymi Donalds Trump kveðst hafa orðið fyrir árás hakkara, og kennir Írönum um. Í yfirlýsingu frá teyminu í gær segir að óprúttnir aðilar hafi komist yfir innri samskipti kosningateymisins og því haldið fram að Íranir stæðu að baki árásinni.

Sá grunur var ekki rökstuddur frekar, en yfirlýsingin kom daginn eftir að Microsoft greindi frá því að erlendir aðilar hefðu verið að reyna komast í viðkvæm gögn í tengslum við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Í skýrslu Microsoft segir að íranskir tölvuþrjótar á vegum hersins hafi sent gildru í formi tölvupósts til háttsetts manns í forsetaframboðsteymi, í gegnum stolinn bandarískan tölvupóstaðgang.

Fjölmiðill fékk gögn úr herbúðum Trumps

Fjölmiðillinn Politico greindi fyrst frá tölvuárásinni. Þar kemur fram að miðillinn hafi fengið tölvupósta frá ónefndum heimildamanni sem bauð þeim gögn innan úr herbúðum Trumps. Þar var meðal annars að finna ítarlega rannsókn á JD Vance sem framboðið virðist hafa látið framkvæmda í febrúar, en Vance var valinn varaforsetaefni Repúblíkana í júlí.

Steven Cheung, talsmaður framboðs Trumps, segir að árásin hafi verið gerð af „erlendum öflum sem væru óvinveitt Bandaríkjunum.“ Talsmaður öryggisráðsins sagði í yfirlýsingu að allar tilkynningar um innrás erlendra afla væru teknar mjög alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×