Innlent

Löturhæg um­ferð inn í borgina

Eiður Þór Árnason skrifar
Þung umferð er á Bláfjallaafleggjaranum að Litlu kaffistofunni.
Þung umferð er á Bláfjallaafleggjaranum að Litlu kaffistofunni. Vegagerðin

Þung umferð hefur verið á Þjóðvegi 1 frá Hellisheiði og inn á höfuðborgarsvæðið nú síðdegis. Greinilegt er að margir eru á heimleið eftir ferðalög í dag og er bíll við bíl vel framhjá Vífilsfelli, að sögn vegfaranda. 

Annar segir að löng bílaröð sé frá Rauðavatni og upp að Litlu kaffistofunni.

„Ég er á fimm kílómetra hraða hérna á Sandskeiðinu, er að nálgast Lögbergið og það er röð alveg upp á Kaffistofu,“ segir ökumaður í samtali við fréttastofu sem er á leið inn í borgina. 

„Ég er búinn að vera svona rúmar 25 mínútur frá Kaffistofunni og ég er ekki kominn að Lögbergsbrekkunni enn þá.“ Miðað við færslur á samfélagsmiðlum hefur umferðin gengið hægt þessa leið í minnst tvær klukkustundir.

Að sögn Vegagerðarinnar er mikill umferðarþungi á Suðurlandsvegi á leiðinni til Reykjavíkur frá Litlu kaffistofunni. „Umferðin rétt mjakast áfram og biðjum við vegfarendur um að sýna þolinmæði.“ Ekki sé hægt að fara Bláfjallaveginn inn í Hafnarfjörð.

Draugahlíðabrekka til Reykjavíkur við Litlu kaffistofuna klukkan 18:50.Vegagerðin
Umferðin við Sandskeið klukkan 18:15.Vegagerðin

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×