Sport

Raygun svarar gagn­rýnis­röddum

Siggeir Ævarsson skrifar
Dansrútína Raygun á Ólympíuleikunum hefur vakið mikla athygli, svo ekki sé fastar að orði kveðið
Dansrútína Raygun á Ólympíuleikunum hefur vakið mikla athygli, svo ekki sé fastar að orði kveðið vísir/Getty

Nokkrir keppendur á Ólympíuleikunum hafa vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína en síðustu daga hefur ástralski breikdansarinn Raygun átt sviðið.

Raygun, eða Rachel Gunn, steig á svið í breikdansi á laugardaginn og það er óhætt að segja að hún hafi ekki slegið í gegn en þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í greinni á Ólympíuleikunum.

Henni mistókst að fá eitt einasta stig frá dómurum og sporin sem hún bauð upp á hafa verið endalaus uppspretta gríns á netinu og þykir sumum nóg um. Raygun er þó ekki af baki dottin þrátt fyrir mótlætið.

„Öll sporin mín eru orginal. Sköpunargáfa skiptir mig mjög miklu máli. Ég fer þarna út og sýni list mína. Stundum talar það til dómara og stundum ekki. Ég geri mína hluti og það er list.“

Gunn er enginn nýliði þegar kemur að breikdansi en hún er 36 ára og með doktorspróf í breikdansi og dansmenningu og kennir við Macquarie í Sydney.

„Ég vissi að ég myndi aldrei vinna þessar stelpur í því sem þær gera best, með krafti og dýnamík, svo að ég vildi hreyfa mig öðruvísi, vera listræn og skapandi, því hversu oft færðu tækifæri til að gera það á alþjóðavettvangi?“

Internetið fær í það minnsta ekki nóg af Raygun en dæmi nú hver um sig hvort grínið sé góðlátlegt eða rætið.

Breikdans verður ekki ein af keppnisgreinunum á næstu Ólympíuleikum sem fara fram í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 2028.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×