Erlent

Vonir bundnar við „heilagan kaleik“ við sykur­sýki týpu 1

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður sprautar sig með insúlíni.
Maður sprautar sig með insúlíni. Getty

Vísindamenn hafa þróað nýja tegund insúlíns sem bregst við breytingum á blóðsykursmagni líkamans í rauntíma. Vonir eru bundar við að einstaklingar með sykursýki muni í framtíðinni aðeins þurfa að taka insúlín einu sinni í viku.

Insúlín er notað til að koma jafnvægi á blóðsykurinn hjá einstaklingum með sykursýki, sem þurfa sumir hverjir að nota insúlín allt að tíu sinnum á dag. Vísindamenn í Bandaríkjunum, Ástralíu og Kína vinna hins vegar að nýrri tegund insúlíns, sem „liggur í dvala“ í líkamanum og bregst aðeins við þegar ójafnvægi er komið á.

Tim Heise, varaformaður ráðgjafanefndar Type 1 Diabetes Grand Challenge, segir mögulega um að ræða nýtt tímabil í baráttunni við sykursýki týpu 1. Svokölluð GRI lyf séu „hinn heilagi kaleikur“ og lyfjameðferðir muni varla komast nær því að lækna sjúkdóminn.

GRI stendur fyrir „glucose responsive insulin“.

Type 1 Diabetes Grand Challenge er átaksverkefni þar sem 50 milljónum punda verður varið í nýjar rannsóknir á nýjum meðferðarúrræðum við sýkursýki týpu 1. Sex verkefni hafa þegar verið styrkt en fjögur þeirra miða að því að þróa GRI og eitt hraðvirkara insúlín.

Elizabeth Robertson, yfirmaður rannsókna hjá Diabetes UK, segir rannsóknirnar mögulega munu umbylta meðhöndlun sykursýki týpu 1 og bæta líkamlega og andlega heilsu einstaklinga með sjúkdóminn, sem munu ekki lengur þurfa að huga að insúlíngjöf mörgum sinnum á dag.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×