Enski boltinn

Öskraði í­trekað á Jóhann: „Hættu þessu fokking væli“

Sindri Sverrisson skrifar
Vincent Kompany og Jóhann Berg Guðmundsson þurfa ekki að hlusta meira hvor á annan í vetur, því Kompany er farinn til Þýskalands.
Vincent Kompany og Jóhann Berg Guðmundsson þurfa ekki að hlusta meira hvor á annan í vetur, því Kompany er farinn til Þýskalands. Samsett/Getty

Jóhann Berg Guðmundsson fær svo sannarlega að heyra það frá þáverandi knattspyrnustjóra sínum, Vincent Kompany, í nýjum heimildarþáttum um enska liðið Burnley sem sýndir eru á Sky. Kompany hraunar yfir Jóhann á æfingu og segir hann tuða allt of mikið.

Í broti úr þáttunum sem sjá má hér að neðan missir Kompany algjörlega stjórn á skapi sínu, eftir að því er virðist að hafa fengið sig fullsaddan af hegðun Jóhanns á æfingu Burnley-liðsins. Belginn virðist telja íslenska landsliðsfyrirliðann tuða allt of mikið. 

Hafa ber í huga að gengi Burnley var slakt á síðasta tímabili, þegar þættirnir voru teknir upp, og fallhættan vísast farin að hafa áhrif á menn en liðið endaði á að falla úr ensku úrvalsdeildinni.

„Joey [Jóhann] ekki fokking prófa mig, nóg komið af þessu helvítis væli. Spilaðu fokking fótbolta, af hverju þarftu að tuða yfir öllu? Fokking spilaðu. Hversu oft þarf ég að segja þér þetta? Hættu þessu fokking væli,“ öskrar Kompany á Jóhann á miðri æfingu, eins og sjá má á þessu myndbandi:

„Er eitthvað sem þú vilt segja öllu liðinu? Ertu stór strákur? Ha? Þú tuðar yfir öllu!“ öskrar Kompany einnig á Jóhann.

Jóhann reynir að malda í móinn og spyr hverju í ósköpunum hann hafi þá verið að tuða yfir en Kompany vill ekki hlusta á það og segir líkamstjáningu Jóhanns algjörlega óásættanlega.

„Þetta er upp á líf og dauða! Fokking spilaðu!“ öskrar Kompany enn einu sinni áður en Jóhann svarar: „Ég fokking veit það.“

Eftir tímabilið og fallið úr úrvalsdeildinni hætti Kompany hjá Burnley og tók við þýska stórveldinu Bayern München.

Samningur Jóhanns við Burnley rann út eftir tímabilið og hann kvaddi félagið en sneri svo óvænt aftur og tekur slaginn með liðinu í næstefstu deild, undir stjórn Scott Parker.

Fyrsti leikur Burnley á nýju tímabili er í kvöld þegar liðið sækir Luton heim í slag tveggja liða sem féllu úr efstu deild í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×