Enski boltinn

Ís­lendingar sam­einast á ný í Birming­ham

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted er mættur í bláu Birmingham-treyjuna.
Alfons Sampsted er mættur í bláu Birmingham-treyjuna. Birmingham FC

Enska knattspyrnufélagið Birmingham tilkynnti í dag að tveir Íslendingar væru komnir í herbúðir félagsins nú þegar ný leiktíð er nýhafin hjá liðinu í ensku C-deildinni.

Alfons Sampsted hefur verið lánaður til Birmingham frá frá hollenska úrvalsdeildarfélaginu Twente. Lánssamningurinn gildir fram á næsta vor og er með möguleika á kaupum að honum loknum til að gera vistaskiptin varanleg.

Áður hafði Birmingham tryggt sér krafta Willums Þórs Willumssonar en landsliðsmennirnir tveir léku saman upp yngri flokka og með meistaraflokki Breiðabliks og eru báðir fæddir árið 1998.

„Ég er ofboðslega glaður. Þetta hefur legið í loftinu í nokkra daga en það er gott að allt sé núna klárt. Síðasta sólarhringinn er ég búinn að bíða eftir því að félögin gefi leyfi svo ég gæti ferðast hingað, svo ég tók lest til Amsterdam og gisti hjá vini mínum í fimm mínútna fjarlægð frá flugvellinum, tilbúinn að hoppa upp í vél,“ segir Alfons á heimasíðu Birmingham.

Birmingham féll úr ensku B-deildinni á síðustu leiktíð, einu stigi frá því að halda sér uppi. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Reading í fyrsta leik nýrrar leiktíðar og mætir svo Charlton á útivelli annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×