Erlent

Fóru um víðan völl í sam­tali á X í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk og Trump fóru um víðan völl en á sama tíma og forsetinn fyrrverandi réðist á Kamölu Harris sagði hann hana fallega á nýrri forsíðu Time og líkti henni við eiginkonu sína.
Musk og Trump fóru um víðan völl en á sama tíma og forsetinn fyrrverandi réðist á Kamölu Harris sagði hann hana fallega á nýrri forsíðu Time og líkti henni við eiginkonu sína. Getty/NurPhoto/Jakub Porzycki

Auðjöfurinn Elon Musk fór mjúkum höndum um Donald Trump í viðtali á X í gær, sem hófst um það bil 40 mínútum of seint vegna tæknilegra örðugleika. Trump fór mikinn gegn innflytjendum og kallaði Kamölu Harris ítrekað „róttækling“.

„Þetta er fólk sem situr í fangelsi fyrir morð og alls konar brot og þeir eru að láta þá lausa til okkar,“ sagði Trump um innflytjendur. Þá gerði hann lítið úr loftslagsvánni og sagði kjarnorku-hlýnun hina raunverulegu ógn.

Trump fór um víðan völl og sagðist meðal annars hefðu getað komið í veg fyrir átökin í Úkraínu. Þá freistaði hann þess að gera lítið úr Harris og öðrum Demókrötum og sakaði þá um að hafa rænt Joe Biden Bandaríkjaforseta völdum.

Á sama tíma notaði hann tækifærið og sagði Biden versta forseta allra tíma.

Það fór vel á með Musk og Trump en fyrrnefndi gaf kost á sér í nefnd um hagræðingu í stjórnkerfinu, eftir að Trump væri kominn aftur í Hvíta húsið. „Ég elska það fyrir þig, þú ert besti niðurskerarinn,“ sagði Trump og var líklega að vísa til tilhneigingar Musk til að segja upp stórum hópum starfsmanna.

Musk, sem er yfirlýstur stuðningsmaður Trump, hefur boðið Harris að ræða við sig á X. Talsmaður framboðs Harris gaf hins vegar lítið fyrir spjall Musk og Trump og sagði framboð síðarnefnda í þágu manna eins og þeirra; efnaðra karla sem væru með sjálfa sig á heilanum og myndu ekkert gera fyrir millistéttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×