Enski boltinn

Orð­rómur um kaup City á Liverpool-stjörnu fær engan stuðning

Sindri Sverrisson skrifar
Luis Diaz virðist ekki vera á förum til Manchester City.
Luis Diaz virðist ekki vera á förum til Manchester City. Getty

Spænski blaðamaðurinn Marcos Benito olli titringi í félagaskiptafréttum fótboltans í dag með fullyrðingum um að Manchester City hefði gert samkomulag við Luis Díaz, leikmann Liverpool, um fimm ára samning.

Samkvæmt Benito átti City að vera tilbúið að greiða Liverpool 70 milljónir evra fyrir Diaz og ljóst að um stórfrétt væri að ræða ef leikmaður færi á milli þessara félaga eftir titilbaráttu þeirra á síðustu árum.

Virtari blaðamenn hafa hins vegar stigið fram hver á fætur öðrum í dag með fullyrðingar sem stangast á við orð Benito.

Þannig segir James Pearce hjá The Athletic að Liverpool hafi ekki fengið neinar fyrirspurnir varðandi Luis Diaz. 

Félagi Pearce hjá The Athletic, Sam Lee, segir sömuleiðis að sér virðist sem að ekkert sé til í fullyrðingum Benito.

Fabrizio Romano, sem oftar en ekki er fyrstur með félagaskiptafréttirnar, segir svo að heimildamenn sínir hjá City neiti því að eitthvert samkomulag hafi verið gert við Diaz.

Diaz, sem er 27 ára gamall, kom til Liverpool frá Porto í janúar 2022 fyrir 50 milljónir punda og skrifaði undir samning til fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×