Innlent

Í­búi á sjö­tugs­aldri lést í brunanum við Amt­manns­stíg

Eiður Þór Árnason skrifar
kerti

Karlmaður á sjötugsaldri sem var í íbúðarhúsnæði við Amtmannsstíg í miðborg Reykjavíkur þegar eldur kviknaði í morgun hefur verið úrskurðaður látinn. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn sem var íbúi í húsinu var einn í íbúðinni á neðri hæð en íbúar á öðrum hæðum komust út af sjálfsdáðum. Slökkviliði barst útkall um eld í húsnæðinu um klukkan átta í morgun og fljótlega fylgdi tilkynning um að einstaklingur væri líklega þar inni. Hann var fljótlega fluttur á sjúkrahús.

Reyndu lífsbjörgun

„Við sendum allar slökkvistöðvar af stað, fjórar áhafnir og þrjá eða fjóra sjúkrabíla, og þegar við komum á staðinn var staðfest við okkur að það væri einstaklingur inni. Þannig við gengum í það að fara í lífbjörgun og reykkafarar okkar fóru inn með slöngu með sér og fundu einstaklinginn, komu honum í sjúkrabíl og hann var fluttur á bráðamóttöku,“ sagði Guðjón Guðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í morgun. Mikill og þykkur reykur hafi verið í íbúðinni þegar viðkomandi fannst.

Grímur segir í samtali við fréttastofu að eldsvoðinn og eldsupptök séu enn til rannsóknar hjá lögreglunni. Ekki væri hægt að upplýsa um stöðu hennar að svo stöddu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Mikill og dökkur reykur í íbúðinni

Einn var fluttur á slysadeild eftir bruna í íbúðarhúsnæði við Amtmannsstíg í morgun. Aðstoðarvarðstjóri segir mikinn og þykkan reyk hafa verið í íbúðinni þegar viðkomandi fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×