Enski boltinn

VAR-herbergið í enska verður virkt á samfélagsmiðlum í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allar ákvarðanir myndbandsdómara verða útskýrðar vel á samfélagsmiðlum til að auka gegnsæi.
Allar ákvarðanir myndbandsdómara verða útskýrðar vel á samfélagsmiðlum til að auka gegnsæi. Getty/Marcel van Dorst

Áhugafólk um ensku úrvalsdeildina í fótbolta ætti að bæta einum X-reikningi í vöktun hjá sér fyrir fyrsta leikinn á nýju tímabili. Myndbandsdómarar ætla nefnilega að útskýra allar ákvarðanir sínar á samfélagsmiðlum á nýju tímabili.

Nýr X-reikningur myndbandsdómaranna heitir Premier League Match Centre og mun gefa áhugasömum nákvæmar upplýsingar um það sem er í gangi í Stockley Park.

Reikningurinn fór í loftið í gær og samkvæmt tilkynningu frá ensku úrvalsdeildinni þá mun þetta hjálpa til við að auka gegnsæi á störf myndbandsdómara.

„Við getum ekki boðið upp á það að hlusta á samskiptin úr VAR-herberginu þar sem það er ekki leyfilegt. Premier League Match Center getur aftur á mótið boðið upp á næstum því í beinni upplýsingar varðandi VAR og allar aðrar ákvarðanir dómara,“ segir í tilkynningu deildarinnar.

Það verða ekki aðeins upplýsingar frá útvöldum leikjum heldur koma þær úr öllum leikjum deildarinnar.

X-reikningurinn mun bjóða upp á rökstuðning á bak við þær ákvarðanir sem eru teknar í VAR-herberginu þar sem staðreyndir verða í fyrirrúmi og allar tæknilegar upplýsingar birtar.

Ef nauðsyn krefur verður þarna líka fróðleikur um reglur fótboltans og sérfræðingar frá enska dómarasambandinu munu einnig leggja til málanna sé þörf á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×