Innlent

Heilsu­gæslan skipu­leggur sýna­tökur vegna e. coli mengunar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að e. coli hafi verið staðfest, í litlu magni, í vatnssýnum frá Rangárvöllum.
Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að e. coli hafi verið staðfest, í litlu magni, í vatnssýnum frá Rangárvöllum. Vísir/Vilhelm

Heilsugæslan skipuleggur nú sýnatökur vegna mögulegar mengunar af völdum e. coli í neysluvatni á Rjúpnavöllum á Rangárvöllum. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að e. coli hafi verið staðfest, í litlu magni, í vatnssýnum frá Rangárvöllum.

Þann 7. ágúst var tilkynnt um einstaklingar sem höfðu gist á Rjúpnavöllum á Rangárvöllum og veikst af iðrasýkingu. Sóttvarnalæknir, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun (MAST) hafa síðustu daga rannsakað mögulega hópsýkingu vegna mengunarinnar. Fyrstu niðurstöður eru sagðar benda til mögulegrar mengunar í neysluvatni á svæðinu sem kalli á frekari rannsóknir og aðgerðir.

Í nýrri tilkynningu frá embætti sóttvarnalæknis kemur fram að nokkur fjöldi fólks hafi verið á ferðalagi um svæðið á þessum tíma en að uppruni og orsök veikindanna hafa ekki verið staðfest.

Upplýsingasöfnun var skipulögð með það að markmiði að kortleggja umfang málsins, þar með talið fjölda og ferðir þeirra sem veiktust. Heilsugæslan skipuleggur sýnatökur frá einstaklingum sem tengjast málinu.

Fóru samdægurs í heimsókn

Í tilkynningu frá sóttvarnalæknis segir að um leið og tilkynningin barst þann 7. ágúst hafi heilbrigðiseftirlit Suðurlands farið í eftirlitsheimsókn og tekið vatnssýni til rannsókna.

„Fyrstu niðurstöður lágu fyrir föstudaginn 9. ágúst og bentu til E. coli mengunar í vatni. Í kjölfarið fengu staðarhaldarar tilmæli um að sjóða allt neysluvatn og að upplýsa gesti um mögulega mengun. Næsta dag barst staðfesting þess að E. coli hafi greinst í vatnssýnum en þó í litlu magni. Þessar niðurstöður benda til mögulegrar mengunar í neysluvatni á svæðinu sem kallar á frekari rannsóknir og aðgerðir,“ segir í tilkynningu sóttvarnalæknis en embættið, auk MAST, fengu tilkynningu um málið á mánudaginn, 12. ágúst.

Þriðjudaginn 13. ágúst, í gær, var svo boðað til fundar stýrihóps í samræmi við verklag við rannsóknir á vatns- eða matarbornum hópsýkingum. Á þeim fundi voru fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Matvælastofnunar, sóttvarnalæknis, umdæmis-/svæðislæknar Suðurlands og sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×