Innlent

Gísla Pálma refsað fyrir akstur undir á­hrifum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gísli Pálmi tók ekki til varna í málinu.
Gísli Pálmi tók ekki til varna í málinu. Vísir/Andri

Rapparinn Gísli Pálmi Sigurðsson hefur verið dæmdur til að greiða 420 þúsund krónur í sekt fyrir að aka án ökuleyfis og undir áhrifum. Þetta er í annað sinn sem Gísli Pálmi er gripinn við akstur undir áhrifum á hálfu ári.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Í honum segir að Gísli Pálmi hafi verið stöðvaður á ferð sinni um Klapparstíg við Njálsgötu í miðbæ Reykjavíkur föstudaginn 5. janúar.

Þá kom í ljós að Gísli Pálmi var ekki með ökuleyfi eftir að hafa verið sviptur réttindum tvívegis undanfarin ár fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Enn reyndist hann óhæfur til að aka bíl en blóðsýni sýndi að hann var undir áhrifum kannabisefna.

Gísli Pálmi, sem er búsettur í London, mætti ekki í dómssal þegar málið var tekið fyrir og tók því ekki til varna. Var því litið svo á að brot hans væri sannað.

Við ákvörðun refsingar var horft til þess að Gísli Pálmi var sumarið 2023 dæmdur til að greiða 900 þúsund króna fésekt og sviptur ökurétti í þrjú ár vegna aksturs undir áhrifum. Þá hefði hann greitt sekt með lögreglustjórasátt í janúar síðastliðnum meðal annars vegna vímuefnaaksturs.

Var Gísli Pálmi dæmdur til að greiða 420 þúsund krónur í sekt og litið til þess að þetta væri í annað skiptið sem Gísli Pálmi er tekinn undir áhrifum við akstur en í fyrsta skipti tekinn án ökuréttinda.


Tengdar fréttir

Gísli Pálmi í fótbolta með Barry Keoghan

Rapparinn Gísli Pálmi Sigurðsson birti mynd af sér og írska stórleikaranum Barry Keoghan á Instagram í gær þar sem þeir voru í fótbolta saman. Félagarnir, sem eru báðir búsettir í Lundúnum, hittast á vikulegum fótboltaæfingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×