Erlent

Rann­saka inn­brot og mögu­lega vatnsmengun á her­stöð í Þýska­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Herstöðinni var lokað um tíma í gær.
Herstöðinni var lokað um tíma í gær. AP/Roberto Pfeil

Hermálayfirvöld í Þýskalandi hafa atvik til rannsóknar þar sem óprúttnir aðilar eru grunaðir um að hafa brotist inn á Köln-Wahn herstöðina og mengað neysluvatnið.

Talsmaður hersins staðfestir að varnarmálanefnd þingsins hafi verið tilkynnt um atvikið en ekki liggur fyrir hvort viðkomandi tókst ætlunarverk sitt eða ekki.

Um er að ræða nokkuð stóra herstöð nálægt Köln-Bonn flugvellinum en grundsemdir eru sagðar hafa vaknað á þriðjudag um að einn eða fleiri aðilar hefðu brotist inn á stöðina og átt við vatnsleiðslur.

Einn sást flýja herstöðina eftir að nemar á vatnsleiðslum fóru í gang og í kjölfarið fannst gat á girðingu umhverfis stöðina.

Herstöðin var innsigluð um tíma á miðvikudag og engum leyft að koma né fara.

Talsmaður staðfesti að tilkynnt hefði verið um að eitthvað væri óeðlilegt við vatnið en vildi ekki tjá sig frekar. Hermönnum og öðrum á herstöðinni var ráðlagt frá því að drekka vatnið.

Guardian greinir einnig frá því að maður hafi verið stöðvaður á þriðjudag þegar hann reyndi að komast inn á herstöð Atlantshafsbandalagsins fyrir utan bæinn Geilenkirchen. Málið er til rannsóknar en talsmaður neitaði því að viðkomandi stöð hefði verið lokað í kjölfarið.

Herforinginn Ulrich Fonrobert, talsmaður heraflans í Norður Rín-Vestfalíu, segir tilvikin tekin alvarlega og að drykkjarvatnið á Köln-Wahn stöðinni sé til rannsóknar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×