Veður

Lægð yfir landinu og skúradembur norðan- og austan­til

Lovísa Arnardóttir skrifar
Áfram má gera ráð fyrir rigningu í dag. Myndin er úr safni. 
Áfram má gera ráð fyrir rigningu í dag. Myndin er úr safni.  Vísir/Vilhelm

Alldjúp og hægfara lægð er nú yfir norðanverðu landinu. Henni fylgir vestlæg átt, kaldi eða stinningskaldi og rigning víða um land. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að það dragi úr vætu norðvestantil þegar líður á daginn.

Á Norðaustur- og Austurlandi verði vindur hægari og þurrt að kalla fram eftir morgni. Síðdegis er útlit fyrir öflugar skúradembur á þeim slóðum. Hiti verður líklega á bilinu 8 til 15 stig, hlýjast um landið norðaustanvert.

Á morgun verður svo norðan og norðvestan gola eða kaldi og súld eða dálítil rigning. Það léttir þó smám saman til á sunnanverðu landinu, víða bjart þar eftir hádegi en líkur á stöku síðdegisskúrum. Hiti frá 7 stigum við norðurströndina, upp í 16 stig sunnanlands.

Um helgina er svo útlit fyrir áframhaldandi norðan- og norðvestanátt með vætusömu og köldu veðri um landið norðanvert, en bjartara sunnan heiða og mildara yfir daginn þó búast megi við einhverjum skúrum.

Á vef Vegagerðar má sjá að greiðfært er um landið allt. Gott er að fylgjast með færð og aðstæðum á vegum á vef þeirra og veðri á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Norðan og norðvestan 5-10 m/s og dálítil rigning eða súld. Léttir smám saman til á sunnanverðu landinu, en líkur á stöku síðdegisskúrum þar. Hiti frá 7 stigum við norðurströndina, upp í 15 stig sunnanlands.

Á laugardag:

Norðan 5-13 vestantil, annars hægari vindur. Rigning eða súld með köflum, en úrkomuminna á Vesturlandi. Hiti 5 til 13 stig, svalast norðvestanlands.

Á sunnudag og mánudag:

Norðvestan og norðan 5-13 og lengst af rigning norðanlands. Bjart með köflum sunnantil, en líkur á stöku skúrum. Hiti 5 til 12 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Vestlæg átt og dálítil væta, en þurrt að kalla á Suðurlandi. Hiti víða 8 til 13 stig að deginum.

Á miðvikudag:

Norðlæg eða breytileg átt og dálitlar skúrir, en yfirleitt þurrt vestantil. Heldur kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×