Erlent

Óttast aukna út­breiðslu sýklalyfjaónæmra lekandabaktería

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lekandi orsakast af bakteríunni Neisserie gonerroheae.
Lekandi orsakast af bakteríunni Neisserie gonerroheae. Getty/BSIP/UIG

Heilbrigðisyfirvöld í Englandi hafa áhyggjur af fjölgun tilvika sýklalyfjaónæmra lekandasýkinga. Nokkrir hafa þurft að leggjast inn þar sem hefðbundin sýklalyf virkuðu ekki gegn sýkingunni.

Samkvæmt umfjöllun Guardian greindust fimmtán með stofna lekanda sem reyndust ónæmir fyrir sýklalyfinu ceftriaxone á tímabilinu júní 2022 til maí 2024. Ceftriaxone er fyrsta val þegar einstaklingur greinist með lekanda.

Nokkrir þessara fimmtán þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og fá blöndu af sýklalyfjum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýkingarinnar og alvarlegar afleiðingar, sem geta meðal annars verið bólgur í kviði og ófrjósemi.

Fimm greindust með ofur-ónæma stofna lekanda, sem þýðir að bakteríurnar reyndust ónæmar fyrir fjölda sýklalyfja.

Fyrir árið 2022 höfðu aðeins níu tilvik af sýklalyfjaónæmum lekanda greinst á Englandi.

Samkvæmt UK Health Security Agency (UKHSA) eru flestir þeirra sem hafa greinst gagnkynhneigðir og á þrítugsaldri. Þá eru flestir taldir hafa smitast utanlands en vitað er um smit innanlands.

Um það bil 85 þúsund manns greindust með lekanda á Englandi í fyrra, þannig að um er að ræða afar lítinn fjölda. Kynsjúkdómasmitum fer hins vegar fjölgandi og sérfræðingar hafa áhyggjur af því að aukin útbreiðsla gæti leitt til aukins sýklalyfjaónæmis.

Í versta falli gæti farið svo að ekki verði hægt að meðhöndla lekanda og því er fólk hvatt til að nota smokkinn og láta athuga sig ef grunur leikur á smiti.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×