Enski boltinn

Spurs setur Bissouma í bann fyrir hláturgasmyndbandið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Yves Bissouma er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Tottenham.
Yves Bissouma er á leið inn í sitt þriðja tímabil með Tottenham. getty/Warren Little

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur staðfest að félagið hafi sett malíska miðjumanninn Yves Bissouma í eins leiks bann vegna myndbands þar sem hann sást anda að sér hláturgasi.

Bissouma hefur beðist afsökunar á myndbandinu sem hann birti á Snapchat um helgina. „Ég vil biðjast afsökunar á þessum myndböndum. Þetta var alvarlegt dómgreindarleysi,“ sagði leikmaðurinn í afsökunarbeiðni sinni.

Tottenham sagðist í yfirlýsingu ætla að taka á málinu innanhúss og á blaðamannafundi í dag staðfesti Postecoglou að Bissouma myndi ekki taka þátt í leiknum gegn Leicester City á mánudaginn.

Að sögn Postecoglous brást Bissouma skyldum sínum sem fyrirmynd. Hann sagði jafnframt að hann þyrfti að vinna sér inn traust samherja sinna á ný.

Tottenham keypti Bissouma frá Brighton fyrir tveimur árum. Hann hefur leikið 56 leiki fyrir liðið.

Spurs endaði í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×