Enski boltinn

Ed Sheeran eignast hlut í ensku ­­fé­lagi en frábiður sér kvart og kvein

Sindri Sverrisson skrifar
Ed Sheeran er eldheitur stuðningsmaður Ipswich Town.
Ed Sheeran er eldheitur stuðningsmaður Ipswich Town. Getty/Joe Giddens

Söngvarinn Ed Sheeran er ekki lengur aðeins harður stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Ipswich því hann hefur nú eignast hlut í félaginu.

Sheeran hefur stutt Ipswich frá barnsaldri og fagnaði því ákaft þegar liðið vann sig upp í ensku úrvalsdeildina í vor.

Núna hefur Sheeran fest kaup á 1,4% hlut í Ipswich. Það þýðir þó ekki að hann muni taka sæti í stjórn félagsins og hann frábiður sér allt tuð yfir leikmannakaupum og stefnu félagsins. Hann mun hins vegar eiga sitt hólf á leikvangi félagsins, Portman Road.

Sheeran hefur einnig átt aðalauglýsinguna á treyjum Ipswich síðustu ár, eða frá 2021, og hinn svokallaði „þriðji búningur“ Ipswich í ár er bleik treyja hönnuð af söngvaranum.

„Það er draumur allra fótboltastuðningsmanna að eignast félagið sem þeir styðja og ég er svo ánægður með þetta tækifæri,“ sagði hinn 33 ára gamli Sheeran sem er alinn upp í Suffolk-héraðinu, þar sem félagið sem hann elskar svo heitt er staðsett.

„Ég hef búið í Suffolk síðan ég var þriggja ára gamall og þegar ég ferðast um heiminn, og líður stundum eins og aðkomumanni í stórborgunum, þá láta Suffolk og Ipswich mér alltaf líða eins og ég sé öruggur og hluti af samfélaginu.

Það er svo gaman að vera stuðningsmaður Ipswich Town. Gengið er upp og niður en fótboltinn snýst um að geta tekið því góða og því slæma. Ég er ekki að fara að verða hluthafi með kosningarétt eða stjórnarmaður, ég er bara að setja peninga í félagið sem ég elska og þeir að gera vel við mig í staðinn, svo vinsamlegast ekki kvarta í mér varðandi kaup á leikmönnum eða breytingar á taktík,“ sagði Sheeran léttur.

Ipswich byrjar leiktíð sína sem nýliði í ensku úrvalsdeildinni á því að mæta Liverpool á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×