Skoðun

10 stað­reyndir um verð­bólgu og ríkisfjármál

Konráð S. Guðjónsson skrifar

Síðustu ár hafa verið óvenju sveiflukennd í íslensku efnahagslífi: Fyrst kom heimsfaraldur með tilheyrandi niðursveiflu en síðan uppsveifla þar sem hagvöxtur var sá mesti í hálfa öld Fylgifiskurinn var lækkun vaxta og síðan hækkun í framhaldi af verðbólguskoti, sem enn er í rénun.

Í almennri umræðu hafa spjótin beinst að ríkinu, sem út af fyrir sig er skiljanlegt. Það sem virðist til viðbótar hafa gerst er að einföldum staðreyndum um þróun mála og þekktum kenningum hagfræðinnar sé öllum snúið á hvolf til þess að gera ríkið alfarið ábyrgt fyrir verðbólgunni. Við viljum öll vinna bug á verðbólgunni, en með röngum sjúkdómsgreiningum mun það ekki takast. Því er mikilvægt að eftirfarandi komi fram:

1. Verðbólga er peningalegt fyrirbæri

Einn stærsti lærdómurinn af verðbólguskoti síðustu ára er að orð Nóbelsverðlaunahagfræðingsins Milton Friedman í grein árið 1970 voru ekki eins úrelt og margir héldu. Hann sagði að: „Verðbólga er alltaf og allsstaðar peningalegt fyrirbæri að því leyti að hún verður aðeins til þegar peningamagn vex hraðar en verðmætin.” Margir hafa túlkað þetta með ýmsum hætti. Jafnvel haldið að verðbólgan sé ríkisfjármálalegt fyrirbæri. Friedman skýrir þetta hins vegar með því að þáttur ríkisfjármála fari aðallega eftir því hvort að ríkið fjármagnar sig með peningaprentun eða með sköttum/lántöku. Sé það hið síðarnefnda eru áhrifin augljóslega minni og sumpart óljós. Að lokum segir Friedman: “Í sjálfu sér, er [ríkisfjármálastefna] ekki mikilvæg fyrir verðbólgu.” Hvers vegna kenningum Friedmans hefur verið snúið á hvolf er ráðgáta. Mögulega er skýringin sú að það gleymist að sjálfstæðir seðlabankar litu ekki dagsins ljós fyrr en eftir 1970. Fram að því voru mörk stjórnar peninga- og ríksfjármála óljós eða engin. Því er ekki að heilsa á Íslandi í dag með sjálfstæðum Seðlabanka.

2. 55 % vöxtur peningamagns frá febrúar 2020

Sé litið til breiðrar skilgreiningar á peningamagni í umferð (M3) hefur það vaxið um 55% frá því að heimsfaraldurinn skall á árið 2020. Á fjórum árum er það í öllu samhengi mikið og talar ágætlega við kenningar Friedman um að verðbólgan sé peningalegt fyrirbæri. Málið er vissulega miklu flóknara, en má orða þannig að án of mikils vaxtar peningamagns sé viðvarandi verðbólga mjög ólíkleg.

3.  Ríkissjóður hefur ekki prentað eina krónu

Staðreyndin er aftur á móti sú að ríkissjóður hefur ekki prentað eina krónu af þeim 1.203 milljörðum króna sem hafa bæst við í umferð í tíð hennar. Ríkissjóður hefur vissulega verið rekin með halla en sá halli hefur verið fjármagnaður með lántöku sem býr ekki til nýja peninga heldur færir þá einfaldlega frá þeim sem spara og til ríkissjóðs.

4.  Vöxtur peningamagns verður fyrst og fremst til í fjármálakerfinu

Staðreynd málsins er sú að peningamagn í nútímanum verður að mestu leyti til í bankakerfinu. Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður, ekki síst utanaðkomandi. Síðustu ár eru þær augljósustu að vextir voru lágir, sem jók eftirspurn eftir lánsfé og peningum, enda eru vextir verðmiði peninga. Breytingar á heimildum bankanna til bindingar fjár í Seðlabankanum, eins og afnám 30 daga bundinna innlána sem hefur ekki enn verið komið á aftur, höfðu einnig áhrif. Peningastefnan getur leikið lykilhlutverk enda er góð ástæða fyrir því að meginmarkmið Seðlabankans samkvæmt lögum sé að stuðla að stöðugu verðlagi. Þar með er alls ekki sagt að allt sé einfaldlega Seðlabankanum að kenna, enda orsakir verðbólgu mun margslungnari en svo að þær ráðist alfarið af aðgerðum hans.

5.  Peningalegt aðhald Seðlabankans var undir jafnvægi þar til fyrir ári síðan

Þegar litið er til aðhalds Seðlabanka er venjan að horfa á raunvexti. Seðlabankinn sjálfur hefur metið að í jafnvægisástandi gætu þeir vexti verið í kringum 2%. Því vaxtastigi var hins vegar ekki náð fyrr en á seinni hluta árs 2023. Þegar verðbólga nálgaðist 10% árið 2022 voru vextir á hinn bóginn 4% sem felur í sér -6% raunvexti. Með öðrum orðum er aðhald peningastefnunnar að þessu leyti tiltölulega nýtilkomið.

6.  Aðhald ríkissjóðs frá árinu 2022

Þegar horft er til aðhalds ríkisfjármála er á hinn bóginn litið til þess hvort að afkoma ríkissjóðs sé til þess fallin að auka eftirspurn í hagkerfinu eða ekki. Frá 2022 er það staðreynd að aðhaldið hefur verið aukið jafnt og þétt, á það hefur Seðlabankinn bent. Ríkið hefur því í þrjú ár lagst á móti hratt vaxandi eftirspurn sem hefur átt sinn þátt í þrálátri verðbólgu. Það má svo sífellt rökræða hvort ríkið hafi átt að gera meira eða minna, en það breytir ekki því að aðhald er aðhald.

7.  100 milljarða betri afkoma 3 ár í röð

Aukið aðhald á líka þá birtingarmynd að ríkissjóði hefur verið snúið úr nærri 300 milljarða króna halla árið 2020 í aðeins 20 milljarða halla á síðasta ári. Sá viðsnúningur endurspeglar seigluna í íslensku efnahagslífi og að áætlun ríkisstjórnarinnar um að tryggja viðspyrnu hagkerfisins gekk fullkomlega upp. Raunar betur en nokkur þorði að vona því að afkoman hefur þrjú ár í röð verið um 100 milljörðum betri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

8.  Raunaukning ríkisútgjalda á mann: 3%

Mikið hefur verið rætt um mikinn nafngjaldavöxt ríkissjóðs síðustu ár, en sú umræða ratar stundum inn á villigötur og virðist ganga út frá því að sá vöxtur sé alfarið orsök, en ekki afleiðing, mikillar verðbólgu. Staðreyndir málsins eru þær að þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu og mikilla launahækkana, sem byggja í grunninn á stefnumarkandi samningum á almennum vinnumarkaði, nemur raunútgjaldavöxtur ríkisins 3% frá árinu 2017 - 0,4% á ári. Það eru öll ósköpin.

9.  Launahækkanir hafa áhrif á verðbólgu og nafnaukningu ríkisútgjalda

Ef við sundurliðum nafnútgjaldaukningu ríkissjóðs nánar má áætla að meira en helming hans megi rekja til launahækkana og afleiddra áhrifa þeirra, sem og verðbólgu, á tilfærslur. Og hverjar hafa launahækkanir verið? Samtals hækkaði launakostnaður á vinnustund um 42% síðastliðin fjögur ár. Á Norðurlöndunum hafa hækkanirnar verið á bilinu 9% til 14%. Varla er algjör tilviljun að á sama tíma sé verðbólga á undanhaldi eða löngu horfin á Norðurlöndunum. Það má líka segja að ef miklar launhækkanir hefðu ekki áhrif á verðlag væri búið að finna upp eilífðarvél til að auka kaupmátt með launahækkunum um alla framtíð. Svo er augljóslega ekki.

10.  Skuldir ríkissjóðs fara lækkandi næstu ár

Stóra málið, líklega það mikilvægasta til framtíðar, er að staða ríkissjóðs er sterk þrátt fyrir ýmis áföll síðustu ára. Skuldir hins opinbera eru í meðallagi í alþjóðlegu samhengi og í nýrri fjármálaáætlun fer skuldahlutfall ríkissjóðs lækkandi. Síðustu ár hafa sýnt að viðráðanleg skuldastaða hjálpar gríðarlega ef áföll skella á og því mikilvægt að tryggja að skuldaþróun verði áfram sjálfbær.

Að lokum

Hér er því ekki haldið fram að ríkisfjármálin hafi ekki áhrif verðbólgu og vaxtastig í landinu og að ekkert sé hafið yfir gagnrýni síðustu ár og misseri. Aðhald er stjórnmálamönnum nauðsynlegt enda ábyrgð þeirra mikil. Áhrif ríkisfjármála á verðbólgu eru þó allt önnur og mögulega minni en margir virðast telja.

Við þurfum að halda áfram á braut hæfilegs aðhalds í ríkis- og peningamálum og tryggja að nýir langtímakjarasamningar á almennum vinnumarkaði haldi. Þannig komumst við í dauðafæri til að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum. Ef Íslendingum er síðan alvara um að ná varanlegum verðstöðugleika og þar með vaxtastigi sem er sambærilegt þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, er fyrsta skrefið að greina hvert vandamálið er. Rangfærslur um peningaprentun ríkissjóðs eða að einblína á ríkissjóð eins og að aðrir þættir skipti ekki máli eru hins vegar bein leið að því að halda áfram að hjakkast í sama farinu um ókomna tíð.

Höfundur er efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Uppfært 20.8.2024 Í upphaflegri útgáfu greinarinnar sagði að peningamagn hefði vaxið 68 prósent frá því í febrúar 2020. Því hefur verið breytt í 55 prósent að beiðni höfundar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×