Innlent

Katrín gerir upp fram­boðið og safnar heitum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Katrín bauð sig fram til forseta í vor.
Katrín bauð sig fram til forseta í vor. Vísir/Vilhelm

Framboðsteymi Katrínar Jakobsdóttur er á lokametrunum við að gera upp framboð hennar til forseta, og hefur leitað til stuðningsmanna til að loka gatinu.

Frá þessu greinir Bergþóra Benediktsdóttir, sem var kosningastjóri Katrínar og aðstoðarmaður hennar þegar hún var forsætisráðherra. Hún birti færslu í stuðningsmannahóp Katrínar á Facebook þar sem hún þakkaði fyrir samvinnuandann í vor og óskaði eftir fjárframlögum.

Færslan í heild inni er svona, án reikningsupplýsinganna.

„Kæru félagar!

Ég vona að sumarið hafi farið vel með ykkur og þakka aftur ánægjuleg kynni og einstakan samvinnuanda í vor. Nú erum við á lokametrunum við að gera upp framboðið og það vantar herslumuninn til að loka gatinu. Við leitum því til ykkar - ef þið eruð aflögufær og getið hjálpað með því að leggja inn á framboðið væri það afar þakklátt. Við erum mörg hér inni og þetta er fljótt að koma þegar fjöldinn tekur sig til.

Allra bestu þakkir!“

Framboðið kostað allt að fjörutíu milljónir

Kosningabarátta getur verið kostnaðarsöm, en í kappræðum Heimildarinnar í vor sagðist Katrín halda að kostnaður við hennar framboð gæti verið allt að 40 milljónum. Þá hafði hún safnað rúmum 24 milljónum, en ríflega 600 einstaklingar,15 lögaðilar og 20 fyrirtæki höfðu styrkt framboð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×