Enski boltinn

Hafa eytt fjöru­tíu milljörðum í fyrrum læri­sveina stjórans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag er nú með fimm leikmenn hjá Manchester United sem léku undir hans stjórn hjá Ajax.
Erik ten Hag er nú með fimm leikmenn hjá Manchester United sem léku undir hans stjórn hjá Ajax. Getty/Stu Forster

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum stuðningsmanni Manchester United að hollenski knattspyrnustjórinn Erik ten Hag hefur mikla trú á fyrrum lærisveinum sínum hjá Ajax Amsterdam.

Þetta sannaðist enn á ný með kaupunum á þeim Matthijs de Ligt og Noussair Mazraoui frá Bayern München fyrir samanlagt sjötíu milljónir evra.

Áður hafði United keypt þá Antony, Lisandro Martínez og André Onana á síðustu árum.

Samtals hefur United því eytt 272,4 milljónum evra í fyrrum lærisveina stjórans eða meira en 41,3 milljörðum íslenskra króna.

Antony kostaði 95 milljónir evra, Martínez kostaði 57,3 milljónir evra og Onana kostaði 50 milljónir evra.

Antony og Martínez komu beint frá Ajax en Onana kom frá Internazionale Milan á Ítalíu.

Ten Hag stýrði Ajax frá 2017 til 2022 og kom liðinu meðal annars í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar vorið 2019. Undir hans stjórn vann liðið hollensku deildina þrisvar og hollenska bikarinn tvisvar.

Hann hefur síðan unnið titil á tveimur fyrstu tímabilum sínum sem stjóri Manchester United, enska deildabikarinn 2023 og svo enska bikarinn í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×