Hinn eiginlegi 120 ára afmælisdagur var reyndar 4. janúar síðastliðinn en haldið verður upp á afmælið á morgun með fjölbreyttri fjölskyldudagskrá og fríum veitingum.
„Síðan verður Fergusonfélagið hérna með einhverjar dráttarvélar til sýnis og fleira og fleira. Það eru allir velkomnir og taka þátt, við verðum líka með leiki, til dæmis reipitog og kerlingadrátt og axarkast og svona,“ segir Helga Rósa Pálsdóttir, verslunarstjóri Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi.
Kerlingadráttur, hvað er það?
„Það er von þú spyrjir, það er konur, sem sitja á bretti og karlarnir eiga að draga þær. Það er þannig dráttur, við verðum bara að hafa þetta nett hérna,“ segir Helga Rósa skellihlæjandi.
Og karlarnir sem koma reglulega í kaupfélagið og fá sér kaffi saman eru alsælir með kaupfélagið sitt.
„Þetta er besta kaupfélagið á landinu, það er alveg ljóst,“ segir Snorri Jóhannesson, bóndi á Augastöðum í Borgarfirði.
Á hverju byggir þú það?
„Að það skuli vera lifandi enn þá og veitir góða þjónustu, það er nú bara þannig.“
„Þetta er ómissandi gjörsamlega, hérna fær maður allt og ef það er ekki til hérna þarf ekki að kaupa það, það er bara svoleiðis,“ segir Unnsteinn S. Jóhannsson, bóndi í Laxárholti í Borgarfirði.
„Hér hefur allt fengist nema líkkistur segja þeir og falskar tennur, þær hafa ekki fengist,“ segir Pétur Jónsson, íbúi á Hvanneyri spenntur að mæta í 120 ára afmælið á morgun, laugardaginn 17. ágúst.