Félagaskipti Alberts til Fiorentina frá Genoa hafa legið í loftinu síðustu daga og vikur. Albert verður upphaflega lánaður til Fiorentina sem getur síðan gengið frá kaupum á honum að tímabilinu loknu.
Áður hafði komið fram að Fiorentina greiði 8 milljónir evra fyrir að fá Albert að láni og að kaupverðið verði 17 milljónir evra gangi hann alfarið til liðs við Flórensliðið næsta sumar. Þá gætu bæst við þrjár milljónir evra í aukagreiðslur. Samtals gæti Fiorentina því endað á að borga 28 milljónir evra fyrir Albert sem gera rúmlega fjóra milljarða íslenskra króna.
Albert è Viola. ⚜️#Fiorentina #Gudmundsson pic.twitter.com/3FWFuzQeDl
— ACF Fiorentina (@acffiorentina) August 16, 2024
Albert átti frábæra leiktíð í ítölsku A-deildinni síðasta vetur og skoraði fjórtán mörk fyrir Genoa. Hann hefur því vakið athygli stærri félaga og meðal annars verið orðaður við enska félagið Tottenham.
Í fréttatilkynningu Fiorentina segir að Albert verði kynntur fyrir stuðningsmönnum og fjölmiðlum á viðburði í hádeginu á þriðjudag.