Enski boltinn

Sagði eyrna­bólgu skýra fjar­veru Sancho

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho kom inn á sem varamaður í leiknum um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi, og klikkaði á víti í vítaspyrnukeppninni sem Manchester City vann.
Jadon Sancho kom inn á sem varamaður í leiknum um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi, og klikkaði á víti í vítaspyrnukeppninni sem Manchester City vann. Getty/Neal Simpson

Útlit er fyrir að Jadon Sancho yfirgefi Manchester United áður en félagaskiptaglugginn í evrópskum fótbolta lokast um mánaðamótin. Það er þó enn óljóst.

Sancho var hvergi sjáanlegur þegar United hóf nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni á því að vinna Fulham 1-0 í gærkvöld. Knattspyrnustjórinn Erik Ten Hag var spurður út í fjarveru kantmannsins:

„Sancho var með eyrnabólgu í vikunni og var ekki hundrað prósent tilbúinn. Hann hefði getað spilað en ég þarf að taka ákvarðanir og valdi frekar aðra leikmenn á bekkinn,“ sagði Ten Hag en bætti við að hann kynni að taka aðrar ákvarðanir yfir tímabilið.

Hollendingurinn losaði sig við Sancho á síðustu leiktíð þegar hann fór að láni til Dortmund, og komst með liðinu alla leið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Sancho hafði gagnrýnt Ten Hag í skrifum á samfélagsmiðlum en Ten Hag sagði í sumar að það mál væri búið.

Engu að síður er Sancho orðaður við önnur félög og nú síðast Chelsea, og svo virðist sem Ten Hag telji United betur borgið án hans.

„Það verður þannig á þessu tímabili að hinir hæfustu komast af, en ég get bara komið tuttugu mönnum í leikmannahópinn,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×