Innlent

Rauðu örvarnar koma síð­degis til Kefla­víkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rauðu örvarnar á flugsýningu. Níu flugvélar skipa sveitina.
Rauðu örvarnar á flugsýningu. Níu flugvélar skipa sveitina. Wikimedia/Adrian Pingstone

Listflugsveit breska flughersins, Rauðu örvarnar, er væntanleg til Keflavíkurflugvallar síðdegis. Utanríkisráðuneytið segir núna að vegna flugskilyrða frá Bretlandi sé mjög ólíklegt að um verði að ræða eiginlega flugsýningu við komu sveitarinnar til Íslands.

Ráðuneytið segir að áætlaður lendingartími Rauðu örvanna sé á tímabilinu 16 til 17:30. Frá Isavia fengust þær upplýsingar að von væri á flugsveitinni til Keflavíkur klukkan 15:50. Hún myndi aðeins hafa skamma viðdvöl á Íslandi og gert væri ráð fyrir brottför klukkan níu í fyrramálið. Í flugturninum áttu menn ekki von á öðru en hefðbundinni lendingu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hyggst taka á móti flugsveitinni. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í fyrradag kom fram að Þórdís Kolbrún yrði viðstödd á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þegar „rauðu örvarnar leika listir sínar“. Núna virðist ólíklegt að ráðherrann fái að sjá mikla loftfimleika.

Rauðu örvarnar koma hingað frá Bretlandi á leið sinni vestur um haf. Listflugsveitin, sem samanstendur af níu þotum, er á leið í mánaðarlanga sýningarför um Kanada í tilefni 100 ára afmælis kanadíska flughersins.


Tengdar fréttir

Rauðu örvarnar leika listir sínar á Íslandi

Rauðu örvarnar, listflugsveit breska flughersins, hefur viðdvöl á Íslandi um helgina á leið sinni vestur yfir Atlantshaf. Áformað er að sveitin leiki listir sínar yfir Keflavíkurflugvelli síðdegis á laugardag, þótt flugsýning hérlendis sé ekki á formlegri dagskrá sveitarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×