Innlent

Reykjanesbær endur­geldur greiðann og býður frítt í sund

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Reykjanesbær býður heitavatnslausum höfuðborgarbúum í sund ókeypis.
Reykjanesbær býður heitavatnslausum höfuðborgarbúum í sund ókeypis. Reykjanesbær

Reykjanesbær býður íbúum í Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Norðlingaholti, Breiðholti, Hólmsheiði og almannadal ókeypis í sund í Vatnaveröld á meðan heitavatnslaust verður á þessum svæðum frá mánudagskvöldi til miðvikudags vegna viðgerðar á suðuræð Veitna.

Í tilkynningu frá bænum kemur fram að með þessu vilji íbúar Reykjanesbæjar endurgjalda sams konar boð þegar heitavatnslaust varð í nokkra sólarhringa á Suðurnesjum í vetur þegar hraunrennsli rauf lögnina sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til íbúa á Suðurnesjum.

„Þessi hugmynd kviknaði á samfélagsmiðlum í gær frá íbúum sem vilja launa höfuðborgarbúum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þegar okkur var boðið að sækja sundlaugarnar þegar við komumst ekki í bað og vorum heitavatnslaus dögum saman í vetur,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í samtali við fréttastofu.

„Okkur fannst hún bara frábær og ákváðum að verða við henni og bjóðum öll velkomin sem vilja koma og heimsækja okkur,“ segir hann svo.

Kjartan segir fyrsta flokks sundaðstöðu í bænum. 25 og 50 metra innilaug ásamt stórri rennibraut og meira að segja vatnsleikjagarði inni fyrir yngri börnin.


Tengdar fréttir

Þriggja daga heitavatnsleysi í næstu viku

Á mánudag verður lokað fyrir flutningsæð hitaveitu, Suðuræð, sem flytur heita vatnið frá jarðvarmavirkjunum á stóran hluta af höfuðborgarsvæðinu, til þess að tengja fyrsta áfanga Suðuræðar 2 við dreifikerfi. Búist er við því að kerfið nái fullum þrýstingi um hádegisbil miðvikudaginn 21. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×