Handbolti

Dagur Árni í liði mótsins á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Árni Heimisson var valinn í lið mótsins á EM U18-landsliða.
Dagur Árni Heimisson var valinn í lið mótsins á EM U18-landsliða. Handbolti.is/höá

Ísland átti fulltrúa í stjörnuliði Evrópumóts U18-landsliða karla í handbolta sem lauk í Svartfjallalandi í dag, því Dagur Árni Heimisson var valinn sem leikstjórnandi liðsins.

Dagur Árni átti frábært mót og skoraði til að mynda 51 mark fyrir íslenska liðið, sem hafnaði í fjórða sæti.

Þetta er annað árið í röð sem Dagur Árni er valinn í úrvalslið á stóru móti en hann var einnig valinn í úrvalslið Opna Evrópumótsins í fyrra.

Dagur Árni er KA-maður og úr mikilli handboltafjölskyldu því móðir hans er Martha Hermannsdóttir og faðir hans Heimir Örn Árnason.

Svekkelsið var mikið í lokaleiknum á EM í dag, þegar Ísland spilaði við Ungverjaland um bronsverðlaunin. Þar réðust úrslitin ekki fyrr en í framlengingu en Dagur Árni fékk að líta rauða spjaldið um miðjan seinni hálfleik og það reyndist of mikil blóðtaka fyrir íslenska liðið.

Auk Akureyringsins voru í stjörnuliði mótsins leikmenn frá Danmörku, Frakklandi, Serbíu, Þýskalandi, Spáni, Ungverjalandi og Svíþjóð.

Markmaður: Frederik Møller Wolff (Danmörk)

Vinstra horn: Yoni Peyrabout (Frakkland)

Vinstri skytta: Djordje Drasko (Serbía)

Leikstjórnandi: Dagur Árni Heimisson (Ísland)

Línumaður: Bennet Strobel (Þýskaland)

Hægri skytta: Oskar Møller Jakobsen (Danmörk)

Hægra horn: Hugo Vila López (Spánn)

Besti varnarmaður: Maté Fazekas (Ungverjaland)

Mikilvægasti leikmaður: Nikola Roganovic (Svíþjóð)

Markahæstur: Asaf Sharon (Ísrael) með 79 mörk

Svíþjóð varð Evrópumeistari með sigri á Danmörku í úrslitaleik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×