Enski boltinn

Guardiola: Haaland líður betur en á sama tíma í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar mikilvægu marki sínu fyrir Manchester City á Stamford Bridge í gær.
Erling Haaland fagnar mikilvægu marki sínu fyrir Manchester City á Stamford Bridge í gær. Getty/ Joe Prior

Pep Guardiola hrósaði norska framherjanum Erling Haaland eftir 2-0 sigur Manchester City á Chelsea í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Guardiola talaði þá um Haaland í samanburði við þá Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Haaland skoraði fyrra mark City í leiknum en þetta var hans 91. mark í 100 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Sá norski hefur orðið markakóngur á fyrstu tveimur tímabilum sínum í deildinni.

„Hann er með tölurnar þeirra Messi og Cristiano Ronaldo sem stjórnuðu fótboltanum síðasta áratuginn, síðustu fimmtán árin. Þegar við tökum fyrir tölurnar þá er hann á sama getustigi. Ég veit ekki hvernig hann fer að þessu en 91 mark í 100 leikjum í ensku úrvalsdeildinni er mjög sérstakt, alveg ótrúlegt,“ sagði Pep Guardiola. ESPN segir frá.

„Ég hef það líka á tilfinningunni að Haaland líði betur en á sama tíma í fyrra. Honum fannst hann vera þreyttur eftir ferðalagið í fyrra. Fyrir þetta tímabil, þá var því miður norska landsliðið ekki með á EM en hann fékk þá meiri hvíld og líður vel,“ sagði Guardiola.

„Markið hans var magnað. Hann leggur til liðsins á svo margan hátt. Hann fékk tvö eða þrjú færi en mér finnst alltaf eins og það sé tækifæri til að bæta sig sem fótboltamaður,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×