Erlent

Stjórn­völd virkja neyðar­úr­ræði vegna yfirfullra fangelsa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fangelsin á Englandi eru yfirfull.
Fangelsin á Englandi eru yfirfull. epa/Neil Hall

Stjórnvöld á Englandi hafa virkjað neyðarúrræði vegna plássleysis í fangelsum landsins, sem hafa löngum verið yfirfull en eru nú komin að þolmörkum vegna óeirða síðustu vikna.

Ákvörðunin hefur það í för með sér að handteknir verða nú vistaðir í fangaklefum lögreglustöðva þar til pláss losnar fyrir þá í fangelsi.

Stjórnvöld hafa verið afar skýr með það að óeirðarseggir verða handteknir og dregnir fyrir dómstóla. Mark Fairhurst, framkvæmdastjóri Prison Officers Association, segir hins vegar að neyðarráðstöfunin kunni að verða til þess að fangaklefar lögreglu fyllist.

Úrræðið kann að verða til þess að handteknu þurfa að bíða lengur en ella eftir að mæta fyrir dóm en eitt af markmiðum þess að er að tryggja að enginn sé úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrr en fangelsispláss fyrir viðkomandi hefur verið tryggt.

Samkvæmt umfjöllun Guardian er ástandið afar slæmt en dómsmálaráðuneytið greindi frá því í júlí að ofbeldi og sjálfsskaði í fangelsunum hefði aukist mjög vegna þrengslanna.

Ákveðið hefur verið að minnka hlutfall afplánunartíma sem fangar verða að ljúka úr 50 prósent í 40 prósent, sem þýðir að um 5.500 föngum verður sleppt í september og október. Þetta á þó ekki við um þá sem hafa verið dæmdir fyrir hryðjuverk, kynferðisbrot eða heimilisofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×