Fótbolti

Conte baðst af­sökunar: „Bráðnuðum eins og snjór í sól“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte var miður sín í gær.
Antonio Conte var miður sín í gær. getty/Pier Marco Tacca

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Napoli, bað stuðningsmenn liðsins afsökunar eftir tapið fyrir Verona, 3-0, í 1. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Conte tók við Napoli í sumar og stýrði liðinu í fyrsta sinn í keppnisleik gegn Verona í gær. Ekki byrjaði það vel hjá Conte því gestirnir unnu 3-0 sigur. Hann var auðmjúkur eftir leikinn.

„Við bráðnuðum eins og snjór í sólinni. Það sem mig langar að segja er að við ættum að biðja stuðningsmenn Napoli, sem fylgjast með okkur af ástríðu, afsökunar. Ég er þjálfarinn og tek fulla ábyrgð,“ sagði Conte.

Hann sagði að Napoli gæti fengið liðsstyrk á næstu dögum.

„Einn, tveir, þrír eða fjórir gætu komið; eins margir og félagið vill kaupa. Það verður að tækla vandamálin og það er ekki beint auðvelt,“ sagði Conte.

Hann vill meðal annars fá Romelu Lukaku en það veltur meðal annars á því hvort Victor Osimhen verður seldur eða ekki.

Napoli varð ítalskur meistari tímabilið 2022-23 en lenti í 10. sæti deildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×